Innlent

Slitu borgar­stjórnar­fundi vegna á­standsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá fundi í borgarstjórn.
Frá fundi í borgarstjórn. Vísir/Vilhelm

Borgarstjórnarfundi var slitið rétt í þessu þar sem borgarstjóri fór yfir stöðu mála vegna nýjustu þróunar í COVID-19 smitum á höfuðborgarsvæðinu. Fundir borgarstjórnar hefjast á þriðjudögum klukkan 14 og varði þessi aðeins í fimmtán til tuttugu mínútur. 

Frá þessu greinir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, á Facebook-síðu sinni. Öllum málum á dagskrá fundarins var í kjölfarið frestað og var borgarstjórn einhuga um það að sögn Sigurborgar.

99 smit greindust í gær og langflest á höfuðborgarsvæðinu. Er það í takt við þróunina undanfarna daga þar sem langstærstur hluti fólks í einangrun er á suðvesturhorninu. Sóttvarnalæknir boðar harðari aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu en upplýsingafundur almannavarna fer fram klukkan 15, í beinni útsendingu á Vísi.

„Gripið hefur verið til umfangsmikilla sóttvarnaraðgerða um helgina, sem við eigum von á að verði ennþá umfangsmeiri í dag. Það er því ljóst að það mun koma til frekari breytinga á þjónustu borgarinnar þegar auglýsing heilbrigðisráðherra um hertar aðgerðir mun liggja fyrir. Neyðarstjórn Reykjavíkurborgar hefur starfað frá því um helgina og mun hún gefa út leiðbeiningar um leið og auglýsing heilbrigðisráðherra hefur tekið gildi. Reykjavíkurborg mun upplýsa um stöðu mála og helstu aðgerðir vegna þessarar þróunar á heimasíðu borgarinnar,“ segir Sigurborg Ósk.

„Ég vil hrósa starfsfólki borgarinnar sem hafa leyst erfið verkefni síðustu daga. Það er einstakur metnaður og alúð sem framlína okkar starfsfólks leggur í störf sín. Stjórnendur eru að gera allt sem hægt er til að tryggja að það verði órofin starfsemi í nauðsynlegri velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu og skólum.“

Markmiðið sé að draga úr útbreiðslu veirunnar í samfélaginu.

„Þar er samvinna með borgarbúum lykilatriði. Við förum saman í gegnum þessar vikur.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×