Innlent

Hvatti Íslendinga til dáða gegn hinni ósanngjörnu veiru

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. Vísir/vilhelm

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hvatti Íslendinga til að sýna samstöðu gegn sameiginlegum andstæðingi, hinni ófyrirsjáanlegu og ósanngjörnu kórónuveiru, í lokaorðum sínum á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann ítrekaði mikilvægi einstaklingsbundinna sóttvarna og bað alla um að vera á varðbergi.

„Við erum núna í stöðu sem við vildum gjarnan hafa sloppið við að vera í. Við breytum ekki því sem er orðið en við getum ráðið því hvert framhaldið verður,“ sagði Víðir á fundinum í dag. Næstu dagar myndu fara í aðlögun að hertum veiruaðgerðum sem tóku gildi í dag og því væri einkar mikilvægt að sýna umburðarlyndi.

Þá kvað hann það skiljanlegt að fólki þætti óþægilegt að gefa smitrakningarteymi almannavarna upp nákvæmar lýsingar á öllum sínum ferðum. Fólk velti því jafnframt mikið fyrir sér hvort það hefði átt að haga sér öðruvísi.

„Ekki eyða tíma í það,“ sagði Víðir. „Hjálpið okkur bara að vinna í þessu. Hjálpumst að við að finna þau sem hugsanlega hafa smitast og tryggjum að þau fái upplýsingar til að þau get tekið ákvörðun um varnir, sér og sínum til hagsbóta. Það er bara ein leið áfram í þessu og það er samstaða.“

Nú þyrftu allir að passa sig vel. Gæta að fjarlægð við aðra, þvo hendur, sótthreinsa og vernda viðkvæma hópa.

„Það reynir á þol og þrautseigju núna. Ekkert er hafið yfir gagnrýni,“ sagði Víðir. „Veiran er andstæðingurinn. Hún er ekki fyrirsjáanleg og hún er ekki sanngjörn. Við hins vegar höfum sýnt að vði getum allt þegar við stöndum saman. Við ætlum að ná þessu niður, við munum vinna marga bardaga og litlir sigrar skapa mikla velgengni. Tökum einn dag í einu, hjálpumst að, leiðbeinum, pössum upp á hvert annað og pössum upp á okkar fólk og sýnum öðrum vinsemd og virðingu. Þetta verður áfram í okkar höndum.“

Lokaorð Víðis á upplýsingafundi almannavarna má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×