Innlent

Kósí og sæt heimavist til að byrja með

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem brosir breitt þessa dagana enda búið að landa samningi um nýja heimavist við skólann.
Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem brosir breitt þessa dagana enda búið að landa samningi um nýja heimavist við skólann. Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Mikil ánægja er á meðal starfsmanna og nemenda Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi því ákveðið hefur verið að opna heimavist við skólann á ný en engin heimavist hefur verið þar síðustu ár. Um 820 nemendur eru í skólanum sem koma alls staðar af á Suðurlandi..

„Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra brunaði austur fyrir fjall í vikunni þar sem hún skrifaði undir samning um nýju heimavistina með forsvarsmönnum starfshóps Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga um heimavistina og skólameistara skólans. Heimavist var alltaf rekin á vegum skólans en síðustu árin hefur skólinn verið án heimavistar, sem hefur valdið miklum óþægindum hjá þeim nemendum, sem koma lengst að í skólann og hafa ekki getað nýtt sér almenningssamgöngur til að komast í skólann.

Kósí og sætt til að byrja með

„Þetta er heimavist, sem er í gamla sjúkrahúsinu við Austurveg á Selfossi, sem var svo dubbað upp í farfuglaheimili fyrir tíu árum síðan eða gistiheimili. Þetta verður bara rosalega kósí, sæt lítil heimavist til að byrja með. Við verðum bara með 10 herbergi fram að áramótum en svo bætum við 5 herbergjum við. Það er eigandi þessa húsnæði, sem mun sjá um gæslu og annast daglegan rekstur, þrif og annað,“ segir Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Olga Lísa segir mikinn létti að heimavist, sé að koma í gagnið á ný við skólann.

„Já, við erum búin að vera að reyna að redda nemendum með öðrum hætti undanfarin ár en nú er þetta komið í höfn og við væntum þess að getað stækkað og fengið fleiri herbergi þegar fram líða stundir þegar þörfin verður betur komin í ljós, sem við erum að tala um.“

Frá undirritun samningsins, frá vinstri: Einar Freyr Elínarson, formaður starfshóps SASS (Samtök sunnlenskra sveitarfélaga), Valdimar Árnasonar, framkvæmdastjóri Selfoss Hostel, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu.Aðsent

Olga Lísa er ánægð með að menntamálaráðherra hafi gefið sér tíma til að koma á Selfoss.

„Já, loksins, við erum búin að reyna töluvert en hún kom og var með okkur í undirrituninni. Svo fór hún með mér niður í skóla og við sýndum henni nýja verknámshúsið og sögðum henni frá starfsemi skólans, það var virkilega gaman að fá hana í heimsókn,“ segir Olga Lísa.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.