Innlent

Á jafn­vel von á minnis­blaði vegna kín­verska listans í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar. Vísir/vilhelm

Utanríkisráðuneytið hefur sett sig í samband við kínversk stjórnvöld vegna lista yfir Íslendinga sem koma fyrir í gagnasafni kínverska fyrirtækisins Zhenhua. Þetta segir Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Hún hefur óskað eftir minnisblaði frá ráðuneytinu vegna málsins og býst jafnvel við upplýsingunum í dag.

Talið er að upplýsingar um allt að fjögur þúsund Íslendinga megi finna í gagnagrunninum en hluta hans var lekið nýverið. Bæði Stundin og Morgunblaðið hafa nafngreint Íslendinga sem finna má á listanum. Á meðal þeirra eru stjórnmálamenn, embættismenn og forkólfar í viðskiptalífinu.

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar, ræddi listann í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hún hefur óskað eftir því við utanríkisráðuneytið að nefndinni verði sent minnisblað um málið.

„Því ég veit að utanríkisráðuneytið hefur skoðað þessi mál og haft samband við kínversk stjórnvöld. Þannig að ég á von á, mögulega í dag, minnisblaði frá utanríkisráðuneytinu um þetta mál,“ segir Sigríður.

Þá segir hún að gagnalekinn nú ætti að vekja fólk til umhugsunar um að stöðugt væri verið að búa til ýmiss konar lista yfir fólk, ekki í annarlegum tilgangi heldur vegna lagaskyldu.

„Dæmi um svona lista eru listar bankastofnana vegna reglna um peningaþvætti. Og það er ekki ólíklegt að þessi listi sé runninn undan slíkum listum. Ef marka má fréttir þá er verið að skrá einhver tengsl fólks við alls konar fólk og reglur til dæmis yfir peningaþvætti krefjast þess af bönkum að bankar geri svona lista yfir alla sína viðskiptavini,“ segir Sigríður.

Hún skilur þó áhyggjur fólks af listanum úr gagnagrunni Zhenhua.

„Það vekur kannski áhyggjur að kínversk stjórnvöld, sem við vitum að virða ekki mannréttindi og geta haft einhvern ógagnsæjan tilgang, að svona listar lendi í höndum kínverskra stjórnvalda.“

Viðtal Bítisins við Sigríði má hlusta á í heild í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Birta nöfn Ís­lendinga í kín­verska gagna­grunninum

Talið er að upplýsingar um allt að fjögur þúsund Íslendinga megi finna í gagnagrunni kínverska fyrirtækisins Zhenhua Data Information. Hluta gagnagrunnsins var lekið nýverið og hefur Stundin komið höndum yfir hann.

Nöfn 411 Ís­lendinga í gagna­grunni kín­versks fyrir­tækis

Nöfnum 411 Íslendinga bregður fyrir í gagnagrunni kínversks fyrirtækis sem sérhæfir sig í að fylgjast með hegðun og atferli samfélagsmiðlanotenda. Gagnagrunnurinn hefur að geyma upplýsingar um 2,4 milljónir „þekktra einstaklinga.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×