Innlent

Segir frumvarp ráðherra um nýsköpunarmál vanhugsað

Heimir Már Pétursson skrifar
Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður lögð niður um áramótin.
Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður lögð niður um áramótin. Vísir/ Vilhelm

Talsmaður starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands segir möguleika íslenskra frumkvöðla til styrkja frá Evrópusambandinu verða minni ef frumvarp nýsköpunarráðherra um málaflokkinn nái fram að ganga. Tillögur ráðherra séu vanhugsaðar.

Frumvarp nýsköpunarráðherra um endurskipulagningu á aðkomu stjórnvalda að nýsköpunarverkefnum er opið fyrir umsagnir í samráðsgátt stjórnvalda.Vísir/Vilhelm

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir nýsköpunarráðherra tilkynnti í upphafi árs að hún hyggðist leggja Nýsköpunarmiðstöð Íslands niður og skipa nýsköpunarmálum með öðrum hætti. Frumvarp þar að lútandi er komið í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er gert ráð fyrir að í stað Nýsköpunarmiðstöðvar verði stofnaðir svo kallaðir nýsköpunargarðar með áherslu á stuðning við frumkvöðla og sprotafyrirtæki á sviði hátækni, framlög til nýsköpunar á landsbyggðinni verða aukin og nýr sjóður settur á fót fyrir rannsóknir í byggingariðnaði.

Kjartan Due Nielsen talsmaður um sjötíu starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar segir gott að frumvarp ráðherra sé loksins komið fram og hægt að átta sig á áformum ráðherra. Frumvarpið sé hins vegar slæmt fyrir nýsköpun í landinu.

Kjartan Due Nielsen talsmaður starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands telur frumvarp ráðherra draga úr möguleikum nýsköpunarverkefna á Íslandi til að fá háa styrki frá Evrópusambandinu.Stöð 2/Friðrik Þór

„Það á til dæmis að leggja niður þjónustu gagnvart frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum sem eru að taka sín fyrstu skref. Einnig þjónustu gagnvart atvinnulausum en við höfum verið að sinna nýsköpunarþjónustu gagnvart þeim. Á þessum tímum er þetta mjög einkennilegt,” segir Kjartan Due.

Í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu segir að áfram verði haft samstarf við Vinnumálastofnun um aðstoð við einstaklinga í atvinnuleit.

Kjartan Due segir að samkvæmt frumvarpinu verði stofnað einkahlutafélag utan um nýsköpunargarðana sem muni draga úr möguleikum á háuum styrkjum frá Evrópusambandinu. Ekki þurfi að koma til mótframlag frá verkefnum þegar þau komi frá opinberri stofnun eins og Nýsköpunarmiðstöð en öðru máli gegni með einkahlutafélög.

„Með þessari breytingu þyrftu allir aðilar að vera með mótframlag. Það gengur ekki upp sem rekstrarform í svona verkefnum. Við erum að tala um einn og hálfan milljarð króna á ári sem hafa verið að koma aukalega á ári í þjóðarbúið. Þannig að þetta er illa vanhugsað þessi aðgerð,” segir Kjartan Due Nielsen talsmaður starfsmanna Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir hins vegar að nýsköpunargarðarnir  eigi ekki hvað síst að hlúa að evrópurannsóknum. Það sé mat ráðuneytisins að ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu að sækja áfram um styrki enda verði nýsköpunargarðarnir óhagnaðardrifnir og alfarið í eigu ríkisins.

Tengd skjöl


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.