Erlent

„Við gerum okkar besta, en veiran stendur sig betur“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hertar aðgerðir hafa verið kynntar til sögunnar í Hollandi.
Hertar aðgerðir hafa verið kynntar til sögunnar í Hollandi. EPA-EFE/EVERT ELZINGA

Hollendingar búa sig nú undir hertari aðgerðir vegna útbreiðslu veirunnar þar í landi. Íbúar í þremur stærstu borgum landsins þurfa frá og með deginum í dag að bera grímur í verslunum svo dæmi séu tekin.

„Við gerum okkar besta, en veiran stendur sig betur,“ segir Hugo de Jong, heilbrigðisráðherra Hollands en tilfellum kórónuveirunnar hefur farið mjög fjölgandi í landinu á undanförnum dögum. Í gær greindust 2.914 með veiruna og daginn áður 2.995, en aldrei hafa fleiri greinst með veiruna á einum degi í Hollandi.

Hollendingar hafa í samanburði við mörg önnur ríki Evrópu ekki þurft að grípa til víðtækra aðgerða til þess að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar, og þess í stað hafa yfirvöld þar beitt staðbundnari aðgerðum, þangað til nú.

Í ávarpi til íbúa Hollands sagði Mark Rutte forsætisráðherra að íbúar í Rotterdam, Amsterdam og Haag ættu ekki að ferðast á milli þessara borga, auk þess sem að þeir þurfa að bera grímur í verslunum. Starfsmenn verslana mega nú neita að afgreiða þá sem bera ekki grímu þar inni.

Fólki hefur einnig verið ráðlagt að vinna heima hjá sér ef hægt er, ekki mega fleiri en þrír hittast innandyra auk þess sem að áhorfendum verður ekki leyft að mæta á íþróttaviðburði. Aðgerðirnar tóku gildi í dag og munu gilda í þrjár vikur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.