Erlent

Fram­kvæmda­stjórn ESB hvetur til vopna­hlés Armena og Asera

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Tugir hafa farist í átökum Armena og Asera í Nagorno-Karabakk í dag og í gær. Evrópusambandið segir brýnt að koma í veg fyrir að stríð brjótist út.

Aserski herinn tekst á við þann armenska á hinu hálenda og umdeilda svæði sem Nagorno-Karabakk er. Ríkin tvö gera bæði tilkall til héraðsins og hafa deilt um það síðan á síðustu öld.

Stríð braust út á níunda áratugnum og endaði í eiginlegri pattstöðu. Í dag er héraðið innan viðurkenndra landamæra Aserbaídsjans en Armenar ráða þar ríkjum. Átökin nú eru þau hörðustu síðan árið 2016, þegar um 200 fórust.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telur brýnt að koma á friði sem allra fyrst. Nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að átökin harðni frekar.

„Þess vegna hefur ESB opinberlega biðlað til beggja aðila að forðast ofbeldisaðgerðir og stöðva hernaðarátök nú þegar. Við hvöttum til tafarlauss vopnahlés, að hlé yrði gert hernaðaraðgerðum og að aðilarnir virði vopnahlé í hvívetna,“ sagði Peter Stano, upplýsingafulltrúi framkvæmdastjórnar ESB í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.