Innlent

10% íslenskra fjölskyldna eiga hátt í 44% af heildareignum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hagstofan birtir árlega talnaefni um eignir- og skuldir heimilanna.
Hagstofan birtir árlega talnaefni um eignir- og skuldir heimilanna. Vísir/Vilhelm

Um tíu prósent íslenskra fjölskyldna eiga hátt í 44% af heildareignum fjölskyldna í landinu. Þetta má lesa úr tölum sem birtar voru á vef Hagstofunnar í dag en Hagstofan birtir árlega talnaefni um eigna-og skuldastöðu heimilanna.

Heildareignir íslenskra fjölskyldna jukust um hátt í níu prósent milli áranna 2018 og 2019 og hefur eigið fé fjölskyldna haldið áfram að styrkjast. Samtals nam eigið fé 5.176 milljörðum fyrra sem er aukning um 9,1% milli ára, sem þó er minni hækkun en verið hefur síðustu ár, að árinu 2013 undanskildu.

Þar segir að eignir hafi aukist meira en skuldir milli áranna 2018 og 2019. Heildareignir jukust milli ára úr ríflega 6.855 milljörðum í 7.442 milljarða króna, eða um 8,6%.

Eru þar teknar með í reikninginn allar eignir fjölskyldu, þ.á.m. fasteignir, ökutæki, bankainnistæður og verðbréf. Eignir fjölskyldna í hæstu tíund eigna námu 3.267 milljörðum króna eða 43,9% af heildareignum að því er segir í tilkynningu Hagstofunnar, en það er nánast sama hlutfall og árið 2018. Þá jukust heildarskuldir um 7,3% frá fyrra ári.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fjallar um tölur úr gögnum Hagstofunnar í aðsendri grein á Vísi í dag, þar sem hann meðal annars bendir á að ríkustu 10% Íslendinga eigi meira af hreinum eignum, það er eignir að frátöldum skuldum, en restin af þjóðinni samanlagt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.