Innlent

Tók biblíu, hagla­byssu og Captain Morgan með sér heim til Gísla

Atli Ísleifsson skrifar
Frá vettvangi í Mehamn.
Frá vettvangi í Mehamn. TV2/CHRISTOFFER ROBIN JENSEN

Gunnar Jóhann Gunnarsson segist einungis hafa ætlað sér að hræða hálfbróður sinn nóttina í apríl 2019 sem hann hélt heim til hans, vopnaður haglabyssu og skaut hann að lokum til bana. Segir Gunnar að til átaka hafi komið milli bræðranna og að skotum hafi verið hleypt af fyrir slysni.

Réttarhöld í máli Gunnars Jóhanns, sem ákærður er fyrir að hafa skotið hálfbróður sinn, Gísla Þór Þórarinsson, til bana í norska bænum Mehamn í apríl á síðasta ári, héldu áfram í Héraðsdómi Austur-Finnmerkur í Vadsø í morgun.

Norski staðarmiðillinn iFinnmark segir frá því að saksóknari hafi spurt Gunnar mikið út í ástæðu þess að hann hafi einnig tekið með sér skotfæri heim til Gísla ef ætlunin hafi einungis verið að hræða hann. 

„Ég var mjög reiður, en ég hélt ekki að þetta myndi enda á þennan veg.“

Tæpum tveimur mánuðum fyrir dauða Gísla hafði Gunnar haft í hótunum við bæði Gísla og barnsmóður sína. Hafði Gunnar brugðist hart við fréttum af því að Gísli og barnsmóðir hans hefðu tekið saman og sagst vilja drepa bróður sinn. Tíu dögum fyrir dauða Gísla hafði Gunnar verið úrskurðaður í nálgunarbann.

Sótti haglabyssu í fiskibát

Fyrir dómi lýsti Gunnar aðdragandanum að dauða Gísla. Kom fram að ákærði hafi, aðfararnótt 27. apríl 2019, verið staddur á krá í Mehamn en eftir miðnætti haldið heim. Sagðist Gunnar hafa verið stressaður, tekið bílinn sinn og keyrt niður að höfn. Þar hafi hann sótt haglabyssu sem var um borð í einum fiskibátnum og svo haldið aftur heim til sín þar sem einn félagi hans var í heimsókn. Þegar leið á nóttina hafi Gunnar haldið að húsi bróður síns en snúið við á tröppunum þegar hann tók eftir að byssan var ekki hlaðin. Fór hann þá aðra ferð til að sækja skotfæri og sneri svo aftur.

„Ég sagði félaga mínum að ég ætlaði bara að hræða [Gísla] með því að skjóta í sófann. Félagi minn sat með biblíu í höndinni. Ég tók hana af honum. Ég tók líka með mér flösku af Captain Morgan [romm], og svo hélt ég heim til Gísla bróður míns,“ sagði Gunnar í vitnastúkunni að því er fram kemur í frétt iFinnmark.

Gunnar Jóhann við veiðar.Facebook

Reiddist við að sjá skilaboðin á Facebook

Gunnar sagði ennfremur að hann hafi vonast til að koma að bróður sínum sofandi á sófanum. Áður hafði hann séð bíl bróður síns fyrir utan hjá fyrrverandi konu Gunnars, en þá vonast til að hann hafi einungis verið þar í láni. Fór hann inn í húsið.

Gísli Þór Þórarinsson bjó í Mehamn líkt og hálfbróðirinn, Gunnar Jóhann.

„Hann svaf alltaf á sófanum. En hann var ekki þar. Ég fór þá inni í gamla herbergið mitt í húsinu. Þar var tölvan hans Gísla og Facebook á skjánum. Þar las ég skilaboðin milli Gísla og fyrrverandi konu minnar þar sem þau gerðu grín að mér. Ég vissi ekki að þau gætu talað svona. Ég fékk áfall þegar ég las þetta,“ sagði Gunnar fyrir dómi.

Nokkru síðar hafi svo Gísli komið heim. Gunnar hafi beðið aðeins en svo farið fram til að mæta bróður sínum. 

„Ég fer út með haglabyssuna og þá stendur Gísli þar nakinn á leið í sturtu.“

Gunnar kveðst svo hafa farið að gráta og spurt Gísla hvernig hann gæti hafa tekið upp samband við fyrrverandi konu hans. Sagði Gunnar fyrir dómi að Gísli hafi svo ráðist á sig og að skotinu hafi verið hleypt af fyrir slysni. Þeir hafi slegist um vopnið og þá hafi öðru skoti verið hleypt af.

Frá bænum Mehamn, norðarlega í Noregi.Getty

Vildi fá Gísla til að fara frá Mehamn

Ennfremur segir í grein iFinnmark að Gunnar hafni því að hafa óskað Gísla bana. Hótanir hans hafi ekki haft neina merkingu.

„Þetta var stoltið mitt að tala. Allir sem þekkja okkur vita að ég hef ávallt elskað bróður minn. Ef einhver segir að ég hafi óskað þess að hann væri dauður, þá lýgur viðkomandi.“

Sagðist Gunnar einungis hafa viljað hræða bróður sinn og fá hann til að yfirgefa Mehamn.


Tengdar fréttir

„Annar okkar mun ekki lifa af“

Lögreglan í Finnmörk var hvorki talin hafa gert alvarleg mistök né hafa brotið gegn skyldu sinni til þess að afstýra refsiverðu broti í aðdraganda þess að Gunnar Jóhann Gunnarsson skaut hálfbróður sinn til bana í smábænum Mehamn í Noregi í apríl í fyrra.

Réttarhöld hefjast yfir Gunnari Jóhanni

Réttarhöld hefjast í Noregi í dag yfir 37 ára gömlum íslenskum manni, Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, sem ákærður er fyrir að hafa af ásetningi skotið hálfbróður sinn, Gísla Þór Þórarinsson, til bana í norska smábænum Mehamn í apríl í fyrra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.