Innlent

„Annar okkar mun ekki lifa af“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Mehamn laugardaginn 27. apríl. Réttarhöld yfir Gunnari Jóhanni hófust í dag en þeim hefur verið frestað í tvígang.
Frá vettvangi í Mehamn laugardaginn 27. apríl. Réttarhöld yfir Gunnari Jóhanni hófust í dag en þeim hefur verið frestað í tvígang. TV2/Christoffer Robin Jensen

Lögreglan í Finnmörk var hvorki talin hafa gert alvarleg mistök né hafa brotið gegn skyldu sinni til þess að afstýra refsiverðu broti í aðdraganda þess að Gunnar Jóhann Gunnarsson skaut hálfbróður sinn, Gísla Þór Þórarinsson, til bana í smábænum Mehamn í Noregi í apríl í fyrra.

Þetta var niðurstaða sérstakrar eftirlitsstofnunar um störf lögreglunnar í Noregi sem og ríkissaksóknara. Lögfræðingurinn Edel Olsen tilkynnti lögregluna í Finnmörk til eftirlitsstofnunarinnar fyrir hönd aðstandenda Gísla Þórs.

Fjallað er um þennan anga morðsins í Mehamn í frétt á vef NRK. Réttarhöld yfir Gunnari Jóhanni hefjast í dag. Hann neitar sök og kveðst hafa skotið bróður sinn fyrir slysni.

Í frétt NRK er brotaferill Gunnars Jóhanns hér á Íslandi rifjaður upp en líkt og Vísir fjallaði um á sínum tíma hefur Gunnar hlotið dóma hér á landi fyrir nauðgun og líkamsárás.

Þá kemur fram að í febrúar, tveimur mánuðum áður en Gunnar Jóhann skaut bróður sinn til bana, hafði lögregla til rannsóknar hótanir Gunnars í garð barnsmóður sinnar og Gísla Þórs. Í apríl frétti Gunnar síðan að barnsmóðir hans og Gísli Þór hefðu tekið saman.

Gunnar Jóhann við veiðar.Facebook

Hafði samband við barnsmóðurina og hótaði að drepa bróður sinn

Gunnar Jóhann er sagður hafa brugðist hart við þessu. Hann hafði samband við barnsmóður sína og sagðist vilja drepa bróður sinn. Vegna þessara hótana var Gunnar úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart Gísla og barnsmóður sinni þann 17. apríl. Tíu dögum síðar skaut hann bróður sinn til bana.

Olsen vildi ekki tjá sig við NRK um þann hluta málsins sem snýr að lögreglunni í Finnmörk og hvort koma hefði mátt í veg fyrir að Gísli Þór léti lífið. Hún vísaði í gögn eftirlitsstofnunarinnar og ríkissaksóknara sem NRK hefur undir höndum.

Þegar fjallað var um sakaferil Gunnars í norskum fjölmiðlum vildi lögreglan í Finnmörk ekki svara því hvort henni hefði verið kunnugt um brot hans hér á landi.

Olsen vísar hins vegar í skjöl sem hún telur sýna að lögreglunni hafi verið kunnugt um það að minnsta kosti í febrúar að Gunnar Jóhann væri ofbeldisfullur.

Þannig hafi bæði barnsmóðir Gunnars og Gísli Þór sagt frá því skýrslutöku hjá lögreglu strax í febrúar að Gunnar Jóhann hefði hlotið dóma heima á Íslandi. Þá sagði barnsmóðir hans frá því að hann hefði hótað bróður sínum lífláti.

Gísli Þór Þórarinsson bjó í Mehamn líkt og hálfbróðirinn, Gunnar Jóhann.

Segir lögregluna hafa vitað um „fjölskyldudrama“

Gísli Þór var spurður að því hjá lögreglu hvað hann teldi að Gunnar Jóhann myndi gera. Hann svaraði því til að hann vissi það ekki en að „annar okkar mun ekki lifa af.“

„Lögreglan vissi að ákærði hafði haft uppi líflátshótanir í garð hins látna fyrir morðið. Lögreglan vissi að þetta var „fjölskyldudrama“ þar sem afbrýðisemi, svik, ölvun, andleg veikindi og fyrri ofbeldisbrot komu við sögu,“ skrifar Olsen í skýrslu sinni um málið.

Þrátt fyrir líflátshótanirnar kemst eftirlitsstofnunin um störf lögreglu að eftirfarandi niðurstöðu:

„Samskiptum hálfbræðranna er lýst sem ágætum fram til 16. apríl 2019. Í samskiptum þeirra á milli ber hvorki á andlegu né líkamlegu ofbeldi og þá hafa ekki verið hafðar uppi hótanir…“

Gísli Þór segir í skýrslutöku hjá lögreglu í apríl að hann hafi ekki lengur svo miklar áhyggjur af sjálfum sér. Hann hafi meiri áhyggjur af kærustunni sinni, barnsmóður Gunnars, og börnunum að því er fram kemur í skýrslu eftirlitsstofnunarinnar.

Þá er einnig lögð áhersla á það í skýrslunni að lögreglunni í Finnmörk barst engin tilkynning frá heilbrigðisyfirvöldum.

Gunnar Jóhann sagði við heimilislækninn sinn þann 16. apríl hann væri með sjálfsvígshugsanir. Hann var síðan lagður inn á geðdeild þar sem hann dvaldi í níu daga.

Mehamn er rólegur, lítill bær á norðurströnd Noregs. Nordicphotos/AFP

Fengu enga tilkynningu frá sjúkrahúsinu varðandi Gunnar Jóhann

Heilbrigðisstofnunum ber skylda til þess að láta lögreglu vita ef sjúklingur útskrifast sem talin er geta verið alvarleg ógn við aðra. Engin slík tilkynning barst frá sjúkrahúsinu í tilfelli Gunnars. Ástand hans var ekki talið það alvarlegt.

Olsen gefur lítið fyrir þessi rök og telur að lögreglan hefði sjálf átt að haf samband við spítalann. Þá telur hún einnig að lögreglan hefði getað lagt hald á morðvopnið ef hún hefði hlustað á kunningja Gunnars sem nefndi ákveðna staði þar sem hægt hefði verið að geyma haglabyssuna.

Það er mat ríkissaksóknara, líkt og eftirlitsstofnunarinnar, að lögreglan hafi ekki hagað sér með óábyrgum hætti.

Þannig hafi lögreglumaður ráðfært sig við lögfræðing hjá lögreglunni þegar það fréttist að Gunnar Jóhann hefði brotið gegn nálgunarbanninu og væri á leið heim til Mehamn. Taldi lögfræðingurinn ekki vera grundvöll til þess að handtaka Gunnar.

„Með vísan til þessa samtals er ekkert sem bendir til þess að viðkomandi lögreglumaður hafi fengið viðvörun um það sem síðar gerðist,“ skrifar ríkissaksóknari.

Réttarhöldin hófust í dag eins og áður segir. Að því er fram kemur í frétt mbl.is úr dómsal neitaði Gunnar Jóhann fyrir dómi að hafa skotið bróður sinn til bana af ásetningi. Hann viðurkenndi hins vegar morð af gáleysi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×