Innlent

Hamskipti Vinstri grænna

Jakob Bjarnar skrifar
Rósa Björk er farin, Andrés Ingi er farinn, Drífa er löngu farin ... allt þungavigtarfólk. En ef litið er til skráninga á flokksskrifstofunni eru þeir teljandi á fingrum annarrar handar sem hafa sagt sig úr flokknum eftir að mál egypsku fjölskyldunnar kom upp.
Rósa Björk er farin, Andrés Ingi er farinn, Drífa er löngu farin ... allt þungavigtarfólk. En ef litið er til skráninga á flokksskrifstofunni eru þeir teljandi á fingrum annarrar handar sem hafa sagt sig úr flokknum eftir að mál egypsku fjölskyldunnar kom upp. visir/vilhelm

Í morgun, þegar Björg Eva Erlendsdóttir framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, mætti á flokksskrifstofuna hafði enginn skráð sig úr flokknum síðan Rósa Björk Brynjólfsdóttir sagði skilið við VG í gær.

„Engin úrsögn mætti mér í morgunsárið, en ein nýskráning,“ segir Björg Eva í samtali við Vísi.

Þingmaðurinn Rósa Björk sagði sig úr flokknum í gær. Fyrr á kjörtímabilinu hafði Andrés Ingi Jónsson þingmaður sagt skilið við flokkinn en þau tvö voru andsnúin stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Þau skrifuðu ekki undir stjórnarsáttmálann, sem er afar óvenjulegt þegar um stjórnarþingmenn er að ræða. Kornið sem fyllti mælinn hjá Rósu er afar umdeilt mál; brottvikning egypskrar fjölskyldu af landinu. Hún átti að fara af landi brott á miðvikudaginn en er, þegar þetta er skrifað, í felum.

Úrsögn Rósu úr flokknum og það hversu umdeilt mál egypsku fjölskyldunnar er allt frá því það komst í hámæli, gæti gefið til kynna að allt logi stafna á milli í Vinstri grænum. Ákvörðun stjórnar og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um að beita sér ekki í málinu stangast á við ímynd Vinstri grænna; og það sem Katrín og fleiri hafa áður sagt um málaflokkinn. En hið merkilega er að flokksmenn 5.517 talsins, sem er svipuð tala og var fyrir síðustu kosningar, virðast ekki kippa sér neitt upp við þetta.

Hinn almenni flokksmaður kærir sig kollóttan

Í gær kom fram hjá Kjarnanum að níu hafa sagt sig úr flokknum en sex bæst í hópinn. Með öðrum orðum þá telja fækkun félagsmanna VG á fingrum annarrar handar - eftir að þetta mál kom upp. Það kemur á óvart. Fyrir fram hefði mátt ætla að þar ólgaði og kraumaði. Til dæmis sé litið til heiftar sem til dæmis sýnir sig á Facebook-vegg Katrínar Jakobsdóttur, í athugasemdum við færslu þar sem forsætisráðherra vill meina að stjórnvöld hafi staðið sig vel í málefnum flóttafólks.  Þar eru henni ekki vandaðar kveðjurnar.

Gunnar Smári Egilsson í Sósíalistaflokki Íslands ritaði reyndar grein á Vísi þar sem hann telur forsætisráðherra fara með fleipur en allt kemur fyrir ekki. Reiðin í garð Katrínar og Vinstri grænna virðist bundin við þá sem standa þar utan flokks.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata segir til dæmis í athugasemd við færslu forsætisráðherra og meðal annars:

„Þú veist jafn vel og ég Katrín að fjöldi kjósenda kaus þig og þinn flokk vegna þess að þau trúðu að þú hefðir samkennd með fólki og myndir ekki skýla þér á bak við tölfræði þegar á reyndi fyrir börn af holdi og blóði. Þessi póstur þinn sannar því miður enn og aftur hið gagnstæða.“

Og Hildur Knútsdóttir rithöfundur segir háðsk: 

Ein mjög góð leið fyrir hreyfinguna til að leggja áherslu á að taka á móti fleira fólki á flótta er að reka fólk sem hefur flúið til Íslands ekki úr landi.

Og þannig gengur dælan, en Álfheiður Ingadóttir fyrrverandi ráðherra og hollur félagi í Vinstri grænum er í vörninni:

„Ósköp á fólk erfitt með að kyngja staðreyndum,“ segir hún meðal annars: „Ég velti því fyrir mér í alvöru af hverju þessar mikilvægu upplýsingar og tölulegu staðreyndir eru hundsaðar hér á þræðinum. Á íslensku er til gott orðatiltæki sem lýsir þessu: Menn sjá ekki skóginn fyrir trjánum!“

Andrés Ingi og Rósa Björk eru nú farin úr þingflokki Vinstri grænna. Það þýðir að stjórnarliðar á þingi, þeir sem eru í flokkum sem eiga aðild að ríkisstjórninni, eru nú 33 gegn 30 þingmönnum stjórnarandstöðu, sem er reyndar sundurlynd. Þegar sitjandi stjórn var skrúfuð saman sagði Katrín að mikilvægt væri að þingmeirihluti væri ríkulegur, minnug vandkvæða sem komu upp í stjórn Jóhönnu, sem Katrín sat í, vegna tæps meirihluta á þingi.visir/vilhelm

Hinn almenni flokksmaður kærir sig kollóttan sé litið til úrsagna og sýnir flokki og forystu hollustu. Ef til vill er það sem nú dynur á flokknum til þess fallið að þétta raðirnar eins og til að mynda gerðist vestur í Bandaríkjunum fyrir síðustu forsetakosningar, í herbúðum Donalds Trump. Og/eða að þarna ríki einskonar bönkermentalítet?

Breytt bakland

„Ætli grasrótin hafi ekki breyst mikið síðustu 3 ár. Ég þekki ekki innviðina lengur,“ segir Drífa Snædal forseti ASÍ í samtali við Vísi. 

Víst er að margir töldu Vinstri græna hafa svikið allt sem þeir stóðu og standa fyrir með því að ganga til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Skýrasta dæmið um það er Drífa, fyrrum félagi í Vg, sem sagði sig þá úr flokknum. Og mælti orð sem urðu fleyg, samstarf við Sjálfstæðisflokkinn yrði eins og að éta skít í heilt kjörtímabil.

„Við og við vellur gröfturinn upp í formi frændhygli, innherjaviðskipta, skattaskjóla, auðvaldsdekurs, útlendingarandúðar eða skjaldborgar um ofbeldismenn.

Þá verður VG í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. 

Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi. 

Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina,“ sagði Drífa þá. Hún treystir sér ekki til að ráða í hvað gengur á þar innandyra nú, í kjölfar úrsagnar Rósu Bjarkar.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, er stofnandi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Hann stóð í stórræðum sem fjármálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur en er nú eindreginn stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar. Ásamt gömlum félögum úr Alþýðubandalaginu svo sem Svavari Gestssyni föður Svandísar heilbrigðisráðherra og Álfheiði Ingadóttur.visir/vilhelm

Vinstri hreyfingin sendi frá sér, í kjölfar þess að brotthvarf Rósu spurðist, býsna snubbótta tilkynningu þar sem sagt var að hún hafi verið í flokknum í 16 ár en sé nú farin. Henni var þakkað samstarfið. Katrín segir vissulega eftirsjá af Rósu en þetta hafi svo sem verið viðbúið. (Sjá má nýtt viðtal við Katrínu hér neðar um úrsögnina.)

Önnur og ný Vinstri hreyfing grænt framboð

Þannig virðist vera komin fram á sjónarsviðið allt önnur hreyfing en sú sem menn töldu sig þekkja. Önnur fleyg ummæli eru Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrverandi forsætisráðherra sem sagði um stjórnarsamstarf við Vinstri græn að það væri eins og að smala villiköttum. Þar er vísað til þess, sem hægri menn hafa lengi haldið fram um vinstri væng stjórnmálamanna að þar lúti menn engum flokksaga og þar sé hver höndin upp á móti annarri. Sundrungarkenningin. 

En nú, þegar virðist á bjáta, er hins vegar flokkshollustan sem aldrei fyrr. Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði telur, líkt og Drífa, að baklandið sé orðið allt annað. Sem sætir tíðindum.

Villikettirnir í Vinstri grænum eru farnir, kettirnir í flokknum eru orðnir kassavanir húskettir og kunna vel við sig innan dyra.Vísir/Getty

„Villikettirnir voru að miklu leyti farnir. Þetta er orðinn langur tími í stjórn með hinum póli íslenskra stjórnmála og þeir sem enn styðja flokkinn – sem eru jú allmargir – hafa sætt sig við það,“ segir Eiríkur í samtali við Vísi.

Um hvað er þetta þá?

„Að mörgum fylgismönnum flokksins þyki þetta soldið vont, en það venst.

Gengu að þessu með augun opin

Þessi nýja staða, þessi nýi flokkur, vekur upp ýmsar áleitnum spurningum á kosningavetri, eins og þeirri hvernig Vinstri grænir vilja kynna sig fyrir kjósendum? Varðandi stöðuna sem nú er uppi, þá telur Eiríkur hana nokkuð sem var viðbúið.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir að það sem megi álykta um stöðuna í Vg sé að mörgum fylgismönnum flokksins þyki þetta soldið vont, en það venst.

„Rósa, og Andrés Ingi áður, hefur alltaf verið óánægð með samstarfið við Sjálfstæðisflokk. Kannski var bara tímaspursmál hvenær hún færi. En innan VG eru stórir hópar, og enn stærri i kjósendahópnum, sem eru algjörlega andvígir þessari hörðu stefnu sem íslensk stjórnvöld hafa haldið úti í málefnum hælisleitenda. Svo að, þegar svona mál kemur upp á skerpast þessar línur og óþolið eykst og fullt af fólki á ekki lengur samleið með flokknum. Forystan vissi þetta frá upphafi og tekur þessu því eins og hverju öðru hundsbiti – sem hún vissi alltaf að myndi koma,“ segir Eiríkur.

Þetta er sem sagt kostnaðurinn sem VG greiðir fyrir samstarfið og var þeim ljós frá upphafi, að mati stjórnmálaprófessorsins. En kostnaðurinn er ekki meiri en svo að tala skráðra félaga er sú hin sama og hún var fyrir síðustu kosningar.

„Það var held ég þegar orðið ljóst, við ríkisstjórnarstofnunina, þegar VG samþykkti að Sjálfstæðisflokkur færi með dómsmálaráðuneytið, að þeir myndu allavega í grófum dráttum sætta sig við stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×