Innlent

„Við verðum að búa okkur undir nýja bylgju eftir eina til tvær vikur"

Birgir Olgeirsson skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. 
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.  Vísir/VIlhelm

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að Íslendingar ættu að búa sig undir nýja bylgju kórónuveirufaraldursins hér á landi. Þetta segir Kári í samtali við Vísi í ljósi tíðinda dagsins en þrettán greindust með veiruna í gær og aðeins einn þeirra var í sóttkví. Ekki hafa fleiri greinst sýktir innanlands á einum sólarhring síðan 6. ágúst þegar sextán greindust.

„Þetta er dreift víða um samfélagið. Þetta er fólk sem var ekki í sóttkví, aðeins einn þeirra. Fólkið var með lágar CT-tölur sem gefur til kynna að það sé með mikið af veiru í sér,“ segir Kári og bætir við:

„Við verðum að búa okkur undir nýja bylgju eftir eina til tvær vikur. Ég er ekki að segja að líkurnar séu yfirþyrmandi en nægjanlegar til þess að við eigum að búa okkur undir það.“

Íslensk erfðagreining hefur ekki farið varhluta af faraldrinum en  ungur piltur greindist með veiruna sem hafði komið inn í hús Íslenskrar erfðagreiningar á fimmtudag í síðustu viku. Sá er nemandi við Háskólann í Reykjavík og hefur unnið verkefni hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Kári segir viðbrögðin hafa verið þau að tekin voru sýni úr öllum starfsmönnum sem voru á annarri hæð hússins og þeir sendir heim. Þeir reyndust allir neikvæðir fimm dögum eftir að nemandinn hafði verið í húsinu.

„Þannig að ég lít ekki svo á að það sé ástæða til að halda þeim í sóttkví lengur,“ segir Kári. Hins vegar voru tveir starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar sem höfðu haft meiri samskipti við nemandann. Þeir voru sendir í sóttkví og verða skimaðir aftur að lokinni sjö daga sóttkví.

Kári segir Íslenska erfðagreiningu hafa boðist til að skima alla starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands og hefur í kjölfar þessa atviks boðist til gera slíkt hið sama í Háskólanum í Reykjavík því veiran virðist vera að skjóta upp kollinum í hópum ungs fólks.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.