Fótbolti

Sverrir Ingi frá­bær er PAOK tryggði sæti í um­spili Meistara­deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sverrir Ingi fagnar með liðsfélögum sínum í kvöld.
Sverrir Ingi fagnar með liðsfélögum sínum í kvöld. Vísir/Twitter-síða PAOK

Það er ljóst að vítaspyrnan - og í kjölfarið rauða spjaldið eftir að hafa fengið tvö gul - sem landsliðsmaðurinn Sverrir Ingi Ingason fékk á sig gegn Englandi fyrr í þessum mánuði hefur ekki haft mikil áhrif á miðvörðinn knáa.

Sverrir Ingi var frábær í vörn gríska liðsins PAOK er liðið tryggði sér sæti í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta með frábærum 2-1 sigri á Benfica á heimavelli í kvöld. 

Fyrir leik voru Benfica ef til vill taldir líklegri til árangurs en Sverrir Ingi og félagar voru ekki alveg tilbúnir að hleypa portúgalska liðinu svo glatt áfram. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik var það belgíski landsliðsmaðurinn Jan Vertonghen sem varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og Andrija Živković kom PAOK svo gott sem áfram með marki þegar aðeins fimmtán mínútur voru til leiksloka.

Rafa Silfa minnkaði muninn fyrir gestina í uppbótartíma en nær komst Benfica ekki. Lokatölur 2-1 PAOK í vil og liðið komið í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.  

PAOK mætir þar Krasnodar frá Rússlandi en leiknir verða tveir leikir til að skera úr um hvort liðið kemst í riðlakeppnina. Fara þeir fram þann 22. og 30. september.

Sverrir Ingi átti frábæran leik í liði PAOK í kvöld og var samkvæmt vefsíðunni Sofascore maður leiksins með 7.8 í einkunn. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×