Innlent

Co­vid-að­gerðir innan­lands mildari hér en víða

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Már Guðmundsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri, var í starfshópnum.
Már Guðmundsson, fyrrverandi Seðlabankastjóri, var í starfshópnum. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnaraðgerðir innanlands í kórónuveirufaraldrinum hafa verið í mildari kantinum sé miðað við erlendis. Þjóðarbúið hafði um 11-13 milljarða í tekjur af ferðamönnum á meðan slakað var á aðgerðum við landamærum í júní fram í ágúst. Þá núllaði aukin einkaneysla innanlands eftir samkomubann út minni neyslu meðan á banninu stóð. Þetta er á meðal niðurstaðna starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagsleg áhrif valkosta í sóttvarnamálum.

Þar kemur einnig fram að gagnlegt væri að útskýra markmið sóttvarnaaðgerða betur og auka fyrirsjáanleika um þær eftir því sem við verður komið. Árangursríkar sóttvarnir feli í sér skammtímafórn fyrir langtímaávinning.

Starfshópinn skipa Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greint er frá niðurstöðum starfshópsins á vef Stjórnarráðsins.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var í starfshópnum.Vísir/Vilhelm

Í skýrslunni kemur fram að mat á efnahagslegum áhrifum sóttvarna sé óvenju flókið og erfitt að leggja þá mælistiku á einstakar aðgerðir. Augljóst sé hins vegar að sóttvarnir geti bæði gengið of langt og of skammt. Sóttvarnaaðgerðir innanlands hafi lengst af verið mildar í alþjóðlegum samanburði og árangur þeirra góður. Einna mikilvægast sé að missa ekki tökin á faraldrinum og lenda í sambærilegu ástandi og skapaðist í mars og apríl.

11-13 milljarðar af útfluttri ferðaþjónustu

Efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins eru gríðarleg. Á Íslandi er mestur samdráttur þessa árs í ferðaþjónustu en útlit er fyrir að tekjur greinarinnar dragist saman um 60% fyrstu níu mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Samkvæmt skýrslunni skar Ísland sig ekki úr hvað varðar samdrátt í komu ferðamanna í sumar. Samdrátturinn var svipaður á Íslandi og í mörgum öðrum löndum þar sem ferðaþjónusta er mikilvæg, svo sem Spáni og Grikklandi.

Kórónuveirufaraldurinn hefur sett mark sitt á Ísland sem önnur lönd.Landspítalinn/Þorkell

Talið er að tekjur þjóðarbúsins af útfluttri ferðaþjónustu á tímabili slakari landamæraaðgerða í sumar hafi numið 11-13 milljörðum. Starfshópurinn setur í skýrslunni fram einfalda sviðsmynd þar sem reynt er að meta ytri mörk efnahagslegra áhrifa af breyttu fyrirkomulagi skimunar. Á það er bent í skýrslunni að vísbendingar eru um að tekið hafi að draga úr flugumferð og ferðamennsku samhliða vexti faraldursins í ágústmánuði bæði hér á landi og víða í Evrópu áður en almenn tvöföld skimun hófst á landamærunum 19. ágúst. Sú þróun virðist hafa haldið áfram. Einnig er sýnt skýrt fram á það í skýrslunni að áhættan af einfaldri skimun sé þó nokkuð meiri en af núverandi fyrirkomulagi. Því er líklegt að sá samdráttur vegna breytts fyrirkomulags skimunar, sem sviðsmyndin gefur til kynna að geti verið um 13-20 ma.kr., sé í raun töluvert minni að fyrrgreindum ástæðum.

Mikill munur í einkaneyslu

Einkaneysla tók einnig vel við sér eftir að faraldurinn rénaði og slakað var á samkomubanni í vor. Talið er að vöxtur í tekjum þjóðarbúsins af innlendri einkaneyslu eftir að slakað var á samkomubanni hafi verið svipaður að stærð og samdráttur í þjóðartekjum vegna minni einkaneyslu á meðan samkomubanninu stóð.

Dragist óvissa á langinn getur það haft alvarleg og langvarandi áhrif. Stjórnvöld gegna að mati hópsins lykilhlutverki í að sporna gegn frekara tjóni, t.d. með því að dreifa byrðum áfallsins, skapa skilyrði til að fullnýta framleiðsluþætti þegar aðstæður leyfa, vernda samband atvinnurekenda og starfsfólks, standa vörð um viðskiptasambönd og tryggja að mikilvæg þekking og reynsla glatist ekki á meðan ástandið varir.

Ábendingar hópsins eru:

  • Að gagnlegt væri að útskýra markmið sóttvarnaaðgerða betur.
  • Til bóta væri að auka fyrirsjáanleika um sóttvarnaaðgerðir eftir því sem við verður komið.
  • Að skoða hvort aðrar sóttvarnaaðgerðir á landamærum séu mögulegar án þess að taka of mikla áhættu fyrir þróun faraldursins erlendis.
  • Að skoða gaumgæfilega leiðir til að veita ferðaþjónustu stuðning til að viðhalda reynslu, þekkingu og viðskiptasamböndum á meðan ástandið varir.

Greiningar á vegum starfshópsins

Starfshópurinn er enn að störfum og stendur ýmis greiningarvinna hans yfir eða er að hefjast. Á meðal þess sem unnið er að er sviðsmyndagreining á vegum tölfræðihóps við Háskóla Íslands um þróun faraldursins miðað við mismunandi útfærslur sóttvarna.

Skýrsluna má lesa hér að neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.