Innlent

Sam­þykktu fjár­mögnun fjar­skipta­sæ­strengs

Sylvía Hall skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Vísir/vilhelm

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að tryggja fjármögnun nýs fjarskiptasæstrengs milli Íslands og Írlands, IRIS. Fjármögnunin er þó háð samþykki Alþingis, en stefnt er að því að taka nýja strenginn í gagnið fyrir lok árs 2022 og árið 2023 hið síðasta að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Áætlaður stofnkostnaður strengsins er um 50 milljónir evra, eða rúmlega átta milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi.

Undirbúningur hófst í árslok 2018 með samningi fjarskiptasjóðs við Farice ehf. um fyrsta fasa verkefnisins. Síðan þá hefur verið unnið að margvíslegum undirbúningi, en ákvörðunin er sögð gera félaginu kleift að ræsa næsta fasa verkefnisins og ljúka samningum við helstu birgja.

Stjórnarráðið

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir nauðsynlegt að ráðast í endurnýjun á kerfinu í ljósi þess að Farice-strengurinn sé kominn til ára sinna. „Að auki er skjót uppfærsla útlandasambanda jafnvel enn brýnni nú þegar samgöngur í heiminum eru takmarkaðar um ófyrirséðan tíma vegna Covid 19.“

Árið 2019 var samþykkt stefna fyrir fjarskipti fyrir tímabilið 2019 til 2033. Þar kemur fram að þrír virkir fjarskiptasæstrengir skuli tengja Ísland við Evrópu á hverjum tíma og eru öryggissjónarmið þar í fyrirrúmi. Þá hafi atvinnulífið jafnframt lagt þunga áherslu á að nýr fjarskiptasæstrengur verði lagður á næstu árum „og að hann verði að fullu fjármagnaður af ríkissjóði“ líkt og segir í tilkynningunnni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×