Innlent

Ætla að kæra niðurrif hússins við Skólavörðustíg

Sunna Kristín Hilmarsdóttir og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Borgin hyggst kæra til lögreglu niðurrif 98 ára gamals húss við Skólavörðustíg 36 sem var verndað.
Borgin hyggst kæra til lögreglu niðurrif 98 ára gamals húss við Skólavörðustíg 36 sem var verndað. Vísir/Egill

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að kæra niðurrif hússins við Skólavörðustíg 36 til lögreglu. Þetta segir Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og varaformaður skipulags- og samgönguráðs, borgarinnar í viðtali við fréttastofu.

„Borgin hefur ákveðið, eftir að hafa skoðað málið með lögfræðingum að byggingarfulltrúi og Reykjavíkurborg muni kæra þetta mál til þartilbærra yfirvalda, sem sagt lögreglu, og skoða þá í kjölfarið hvort lög hafa verið brotin eða ekki,“ segir Pawel.

Greint var frá því í morgun að húsið að Skólavörðustíg 36, sem reist var árið 1922, hafi verið rifið í óleyfi í gær. Byggingarfulltrúi sagði að ekki hefði legið fyrir leyfi til að rífa húsið þar sem það nyti verndar byggðamynsturs. Eigandinn hafi aðeins haft leyfi til að byggja hæð ofan á húsið.

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og varaformaður skipulags- og samgönguráðs, er hér fyrir miðri mynd.Vísir/Vilhelm

Birgir Örn Arnarson einn eigenda hússins að Skólavörðustíg 36 sagði í samtali við Vísi í dag að ekki hafi staðið til að rífa húsið þegar framkvæmdir hófust.

Um óhapp hafi verið að ræða þar sem húsið hafi verið talsvert verr farið en reiknað var með. Þegar reynt var að fjarlægja fúið tréverk í milligólfi hafi framhliðin hrunið. Eigandinn vonar að hægt verði að reisa nýtt hús á lóðinni í sem upprunalegastri mynd.

Aðspurður hvort eftirsjá væri að húsinu segir Pawel svo vera.

„Það var allavega skoðun á Reykjavíkurborgar á öllum stundum að rífa ekki húsið heldur byggja ofan á það. Það naut ákveðinnar verndar vegna þeirrar götumyndar sem hér er. Mig langar þó að segja, því það eru auðvitað gefin út yfir 1000 byggingarleyfi á hverju ári, að það er ekki algengt að annað hvort slys eða einhvers konar ásetningsbrot, ef svo reynist vera, eigi sér stað þannig að þetta er algjör undantekning,“ segir Pawel en viðtalið við hann má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×