Fótbolti

Fimm þúsund á­horf­endur fá að mæta á leik Ragnars og Arons á sunnudaginn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stuðningsmenn FCK á leik 12. júlí.
Stuðningsmenn FCK á leik 12. júlí. vísir/getty

Félög í Danmörku halda áfram að fá leyfi til að hleypa áhorfendum inn á völlinn en fyrsta umferðin í danska boltanum fer fram um helgina.

Fyrsti leikurinn fer fram á morgun þegar Midtjylland mætir SönderjyskE en á sunnudaginn spila Ragnar Sigurðsson og félagar í FCK á útivelli gegn Aron Elísi Þrándarsyni og samherjum í OB.

OB hefur fengið leyfi til þess að hleypa fimm þúsund áhorfendum inn á Nature Energy leikvanginn sem er eitt þúsund meira en þeir fengu að hleypa inn undir lok síðasta tímabils.

500 manns mega vera í hverju hólfi á vellinum og því hafa OB-menn skipt vellinum sínum niður í tíu mismunandi hólf. Jack Jørgensen, yfirmaður auglýsingamála hjá OB, segir að farið verði eftir öllum helstu COVID reglum.

FCK lenti í 2. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð en OB í því sjötta. Bæði lið vilja væntanlega gera enn betur á komandi leiktíð; FCK stefnir á gullið og OB vill berjast enn ofar í töflunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×