Innlent

Lægða­gangur og „hressi­legt haust­veður“ í vændum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Haustlægðirnar verða allsráðandi í næstu viku, ef marka má veðurspár.
Haustlægðirnar verða allsráðandi í næstu viku, ef marka má veðurspár. Vísir/Vilhelm

Rigningar má vænta í flestum landshlutum nú í morgunsárið en dregur heldur úr vætu um og eftir hádegi. Það er „hægfara og dýpkandi“ lægð á Grænlandshafi sem stjórnar veðrinu í dag, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

„Lægðin þokast austur með suðurströnd landsins næsta sólarhring, en þá snýst jafnframt í vaxandi norðaustanátt, sem verður orðin allhvöss á Vestfjörðum í kvöld.“

Þá mun ganga á með talsverðu norðaustanhvassviðri og rigningu norðvestan til á morgun. Mun hægari vindur og úrkomulítið annars staðar. Dregur talsvert úr vindi og vætu um helgina

„[…] en spáð er lægðagangi og hressilegu haustveðri í næstu viku, enda kominn sá tími árs þegar slíkra veðra er að vænta,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á föstudag:

Norðaustan 13-18 m/s NV til, en annars fremur hæg breytileg átt. Rigning eða skúrir víða um land, en úrkomulítið á V-landi. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast á SV-landi.

Á laugardag:

Norðan og norðaustan 8-15 m/s, hvassast á Vestfjörðum. Rigning á N-verðu landinu, en stöku skúrir syðra. Hiti 3 til 12 stig, hlýjast á SA-landi.

Á sunnudag:

Fremur hæg norðaustan- og austanátt og dálítil rigning SV-lands, en annars úrkomulítið. Milt veður syðra, en svalt fyrir norðan.

Á mánudag:

Líkur á vaxandi norðaustanátt með talsverðri rigningu á A-helmingi landsins, en annars úrkomuminna og fremur milt veður.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir stífa norðanátt með rigningu á N-verðu landinu, en þurrviðri syðra og fremur svalt í veðri.

Á miðvikudag:

Snýst líklega í vaxandi austanátt og fer að rigna sunnan heiða og hlýnar heldur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×