Fótbolti

Sá sjöundi yngsti til að byrja keppnisleik hjá íslenska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Fannar Baldursson og þeir tveir yngstu sem hafa byrjað keppnislandsleik með Íslandi, Arnór Guðjohnsen tl vinstri og Ásgeir Sigurvinsson til hægri en Ásgeir á metið.
Andri Fannar Baldursson og þeir tveir yngstu sem hafa byrjað keppnislandsleik með Íslandi, Arnór Guðjohnsen tl vinstri og Ásgeir Sigurvinsson til hægri en Ásgeir á metið. Samsett/Getty

Andri Fannar Baldursson er í byrjunarliði Íslands á móti Belgíu í Þjóðadeildinni í kvöld og kemst með því á lista með nokkrum úrvalsmönnum.

Það eru bara sex landsliðsmenn sem hafa verið yngri í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í keppni með íslenska landsliðinu en það eru leikir í HM, EM eða forkeppni Ólympíuleikanna.

Andri Fannar Baldursson er fæddur 10. janúar 2002 og er því átján ára, sjö mánaða og 29 daga í dag.

Andri Fannar hoppar meðal annars upp fyrir þá Aron Einar Gunnarsson og Jóhann Berg Guðmundsson á listanum sem voru báðir orðnir nítján ára gamlir þegar þeir byrjuðu sinn fyrsta keppnislandsleik.

Það þarf að fara alla leið aftur til ársins 1997 til að finna yngri byrjunarliðsmann hjá Íslandi í leik á vegum UEFA eða FIFA. Bjarni Guðjónsson var þá í byrjunarliði Íslands í 4-0 sigri á Liechtenstein á Laugardalsvellinum og skoraði meðal annars eitt marka liðsins.

Metið á hins vegar Ásgeir Sigurvinsson sem var aðeins 17 ára, tveggja mánaða og 26 daga þegar hann var í byrjunarliði íslenska landsliðsins á móti Noregi í undankeppni HM í Stavanger 3. ágúst 1972.

Ásgeir Sigurvinsson tók þá rúmlega eins árs met af Inga Birni Albertssyni.

Arnór Guðjohnsen kom sér upp í annað sætið á listanum þegar hann var í fyrsta sinn í byrjunarliði í keppnislandsleik árið 1979 þá 18 ára og 22 daga gamall. Leikurinn var á móti Sviss í Bern.

  • Yngstir til að byrja hjá Íslandi í keppnislandsleik:

  • (UEFA, FIFA eða ÓL-leikir)
  • 1. Ásgeir Sigurvinsson - 17 ára, 2 mánaða og 26 daga
  • 2. Arnór Guðjohnsen - 18 ára og 22 daga
  • 3. Sigurður Jónsson - 18 ára, 4 mánaða og 18 daga
  • 4. Rúnar Kristinsson - 18 ára, 7 mánaða og 25 daga
  • 5. Ingi Björn Albertsson - 18 ára, 6 mánaða og 9 daga
  • 6. Bjarni Guðjónsson - 18 ára, 7 mánaða og 15 daga
  • 7. Andri Fannar Baldursson - 18 ára, 7 mánaða og 29 daga



Fleiri fréttir

Sjá meira


×