Innlent

Húsa­smiðjunni gert að hætta notkun fingra­faraskanna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Persónuvernd taldi að mörg úrræði stæðu rekstraraðilum til boða sem ekki byggi á viðkvæmum persónuuplýsingum starfsfólks.
Persónuvernd taldi að mörg úrræði stæðu rekstraraðilum til boða sem ekki byggi á viðkvæmum persónuuplýsingum starfsfólks. Vísir/Vilhelm

Það er mat Persónuverndar að notkun Húsasmiðjunnar ehf. á fingrafaraskanna við inn- og útskráningu starfsmanna í launakerfi félagsins samrýmist ekki lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Persónuvernd hefur því gefið út fyrirmæli um að Húsasmiðjan hætti notkun skannans og eyði lífkennaupplýsingum starfsmanna sinna.

Í júní á síðasta ári sendi lögmaður Húsasmiðjunnar Persónuvernd erindi þar sem tilkynnt var um að fyrirtækið hefði tekið í notkun áðurnefndan fingrafaraskanna. Þá var óskað eftir áliti Persónuverndar á því hvort notkun skannans samrýmdist persónuverndarlögum. Með erindinu fylgdi tilkynning Húsasmiðjunnar til starfsmanna um að skanninn yrði tekinn í gagnið.

Í ákvörðun Persónuverndar segir að í tilkynningu til starfsmanna hafi sagt að tilgangur uppsetningar skannans hafi verið inn- og útskráning starfsmanna í og úr vinnu, og að tryggja betur hagsmuni starfsfólks. Ekki kom fram í tilkynningunni hvaða hagsmunir það væru sem notkun skannans kæmi til með að tryggja.

Persónuvernd hefur þá upplýsingar frá umboðsaðila um að skanninn taki mynd af fingrafari notanda. Það teljist til vinnslu með lífkennaupplýsingar, sem séu viðkvæmar persónuupplýsingar.

„Persónuvernd áréttar að notkun lífkennaupplýsinga til að persónugreina einstakling með einkvæmum hætti eru almennt settar mjög þröngar skorður. Kemur hún einkum til greina þar sem önnur vægari úrræði duga ekki og gæti átt við þegar vinnslan er ætluð til aðgangsstýringar tiltekinna svæða á vinnustað vegna sérstakra öryggissjónarmiða svo sem vegna meðferðar matvæla eða hættulegra efna,“ segir í ákvörðun Persónuverndar.

Þá segir í ákvörðuninni að ætla megi að rekstraraðilum bjóðist fjölmörg úrræði til inn- og útskráningar starfsmanna í launakerfi sitt sem ekki byggi á lífkennum eða öðrum viðkvæmum persónuupplýsingum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×