Innlent

Segir ábyrgð á lánalínu varpað óbeint á almenning í gegnum lífeyrissjóði

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Vísir/vilhelm

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segist skeptísk á ríkisábyrgð á lánalínum til Icelandair. Hún segir nálgun ríkisstjórnarinnar valda sér vonbrigðum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ræddu þau um ríkisábyrgð á rekstri Icelandair í þættinum Sprengisandi í morgun. 

Nálgunin veldur vonbrigðum

Formaður Viðreisnar segir nálgun ríkisstjórnarinnar í málinu valda sér vonbrigðum.

„Mér finnst bara að ríkisstjórnin eigi eins og aðrar stjórnir í t.d. Danmörku og Svíþjóð að ganga hreint til verks. Ekki alltaf að láta bankana taka þungar og erfiðar ákvarðanir, eins og til að mynda við sjáum í þessu tilfelli í gegnum brúarlánin og núna sölutrygginguna,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Hún segir siðferðislega rétt að ríkisvaldið beri endanlega ábyrgð en ekki launþegar.

„Á endanum finnst mér það heilbrigðara, mér finnst það meira siðferðislega rétt að fyrst að ríkisstjórnin vill fara þessa leið að það sé þá ríkisvaldið sem á endanum ber ábyrgðina en ekki setja hana óbeint á lífeyrisþega framtíðarinnar sem standa hugsanlega frammi fyrir því að skerða þurfi lífeyri,“ sagði Þorgerður Katrín.

Óboðleg nálgun

„Við erum ekki að segja lífeyrissjóðunum að fjárfesta. Það er að vísu rétt að þeir eru líklegustu fjárfestarnir en ég meina þetta er auðvitað ekki boðleg nálgun sem Þorgerður kemur hér með að segja að ef lífeyrissjóðir fjárfesta í Icelandair sé verið að gera ráð fyrir að þá verði það á kostnað lífeyrisþega framtíðarinnar. Þetta er ekki boðleg nálgun.“

„Stjórnir taka ekki ákvörðun bara út frá ástandinu í þjóðfélaginu. Menn hafa að lögum skyldu til að uppfylla ákveðnar kröfur þegar teknar eru ákvarðanir um fjárfestingar og þeir gera það örugglega í þessu tilviki til að hafa af því ávöxtun í þágu lífeyrisþeganna,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Hér að neðan er hægt að hlusta á umræðuna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×