Innlent

Eins metra regla fyrir alla og 200 megi koma saman

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/vilhelm

Sóttvarnalæknir hefur lagt það til við heilbrigðisráðherra að fjöldamörk samkomubanns verði hækkuð úr hundrað manns upp í tvö hundruð frá og með 7. september næstkomandi, fyrr en áætlað var. Þá verði tveggja metra reglan eins og hún er núna afnumin og í stað þess verði nálægðarmörk miðuð við einn metra.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna nú síðdegis. 

Þórólfur leggur einnig til að leyfilegur fjöldi gesta í sundlaugum og líkamsræktarstöðvum verði 75 prósent af hámarksfjölda í stað 50 prósent eins og nú er. Þá verði íþróttaleikir með snertingu áfram leyfðir með 200 manna hólfaskiptingu og eins metra reglu, auk þess sem sviðslistasýningar verði leyfðar með að hámarki 200 áhorfendum og eins metra reglu.

Engin breyting verði hins vegar á opnunartíma skemmtistaða en Þórólfur leggur áfram til að þeir verði opnir til ellefu á kvöldin, líkt og verið hefur undanfarna mánuði. 

Einn metri ásættanlegur

Eins metra reglan, sem nú er aðeins í gildi í skólum landsins, mun að mati Þórólfs liðka til við ýmislegt í samfélaginu. Þá segir hann að niðurstöður úr rannsóknum sem berist nú sýni að eins metra fjarlægð milli manna minnki líkur á smiti fimmfalt. Það telur Þórólfur ásættanlegt. Grímuskylda verður óbreytt frá því sem verið hefur, utan þess að nú miðast fjarlægðarmörk við einn en ekki tvo metra.

Eins og áður segir er gert ráð fyrir að breytingarnar taki gildi mánudaginn 7. september. Það er nokkuð fyrr en áætlað var en núverandi auglýsing heilbrigðisráðherra um sóttvarnaraðgerðir átti að gilda til 10. september. Þórólfur telur jafnvel von á að nýja auglýsing ráðherra verði birt strax í dag.

Þá gerir Þórólfur ráð fyrir að nýju aðgerðirnar verði endurskoðaðar tveimur til þremur vikum eftir að þær taka gildi á mánudag.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Fjögur ný innan­lands­smit

Alls greindust fjórir með virkt kórónuveirusmit innanlands síðasta sólarhringinn. Tveir voru í sóttkví.

Tveggja metra reglan tekur breytingum

Heilbrigðisráðherra hefur gert breytingu á tveggja metra reglunni svokölluðu. Áður þurfti að tryggja tveggja metra bil á milli einstaklinga sem ekki deildu heimili.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×