Innlent

Óvissustigi lýst yfir vegna norðanhríðar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það gæti snjóað.
Það gæti snjóað. Vísir/Vilhelm

Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórana á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Austurlandi hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna norðanhríðar sem spáð er að gangi yfir landið seint í dag og fram eftir föstudegi.

Útlit er fyrir norðan hvassviðri, 15-20 m/s og talsverða úrkomu. Hiti verður nærri frostmarki og því líklegt að úrkoma falli sem slydda ofan 300 metra yfir sjávarmáli og sem snjókoma ofan 500 metra. Veðrið gæti skapað vandræði fyrir búfénað, einkum kindur til fjalla. Líklegt er að færð spillist á fjallvegum.

Gular og appelsínugular viðvaranir eru í gildi fyrir stóran hluta landsins vegna óveðursins sem væntanlegt er að skelli á síðdegis í dag.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila, að því er segir í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.


Tengdar fréttir

Viðvaranirnar orðnar appelsínugular

Spáð er vaxandi norðanátt á morgun með rigningu á N- og A-verðu landinu og slyddu eða snjókomu til fjalla um kvöldið. Færð getur því spillst á fjallvegum annað kvöld. Gul viðvörun sem var í gildi fyrir Norðurland eystra og Austurland að Glettingi er orðin appelsínugul.

„September hefst með látum“

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir Norðurland vestra, Norðurland eystra, Miðhálendið og Austurland að Glettingi síðar í vikunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.