Erlent

Leita skips með 43 skip­verjum og sex þúsund naut­gripum

Atli Ísleifsson skrifar
Tekist hefur að ná einum skipverja á lífi úr sjónnum. 43 er enn saknað.
Tekist hefur að ná einum skipverja á lífi úr sjónnum. 43 er enn saknað. AP

Japanska strandgæslan leitar nú við afleit veðurskilyrði að 43 skipverjum flutningaskips sem talið er að hafi sokkið suðvestur af landinu. Neyðarboð var sent frá skipinu í nótt. Verið var að flytja um sex þúsund nautgripi með skipinu.

Fellibylurinn Maysak gengur nú yfir svæðið, en björgunarmönnum hefur tekist að ná einum skipverja á lífi úr sjónum.

BBC segir frá því að 39 skipverjanna séu frá Filippseyjum, tveir frá Nýja-Sjálandi og tveir frá Ástralíu.

Maðurinn sem náðist úr sjónum er frá Filippseyjum og sagði hann skipinu hafa hvolft. Hafi hann ekki séð neina aðra úr áhöfninni eftir að hann fór sjálfur í sjóinn, klæddur björgunarvesti.

Á leið frá Nýja-Sjálandi til Kína

Flutningaskipið, Gulf Livestock 1, sigldi úr höfn á Nýja-Sjálandi um miðjan síðasta mánuð, og sigldi áleiðis til Kína. Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Nýja-Sjálands segir að búist hafi verið við að siglingin tæki sautján daga.

Neyðarboð var sent úr skipinu vestur af japönsku eyjunni Amami Oshima.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×