Innlent

Meta hvort heilbrigðiskerfið uppfylli ólíkar þarfir kynjanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ákvað að láta kortleggja heilsufar landsmanna út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ákvað að láta kortleggja heilsufar landsmanna út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Vísir/Vilhelm

Lagt verður mat á hvort heilbrigðisþjónustan taki mið af ólíkum þörfum kynjanna í rannsókn sem heilbrigðisráðuneytið hefur samið við félagsvísindasvið Háskóla Íslands um að gera. Vísbendingar eru um að konur búi að nokkru leyti við lakari heilsu en karlar.

Markmiðið rannsóknarinnar er að greina kynbundin mun á heilsufari og í hverju hann felst og hvort þjónusta heilbrigðiskerfisins mæti ólíkum þörfum kynjanna sem skyldi. Við greininguna verður jafnframt horft til þess að fleiri þættir en kyn skilgreina stöðu fólks og geta haft áhrif á heilsufar þeirra.

Gagnaöflun vegna rannsóknarinnar er þegar hafin og er búist við að niðurstöður verði kynntar í skýrslu fyrir lok ársins. Finnborg S. Steinþórsdóttir, nýdoktor í kynjafræði, annast rannsóknina, að því er kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Við rannsóknina verður byggt á gögnum úr heilbrigðiskerfinu og almannatryggingakerfinu auk niðurstaðna ýmissa kannana sem tengjast lífsháttum og lýðheilsu. Í greiningunni verða upplýsingar um fjölskyldugerð, efnahag, menntun, neysluvenjur, lyfjanotkun, slys, sjúkdóma, örorku, bólusetningar og margt fleira skoðað.

Fyrirmynd verkefnisins eru niðurstöður nefndar heilbrigðisráðherra um heilsufar kvenna frá árinu 2000. Þær voru að konur búi að nokkru leyti við lakara heilsufar en karlar, að þær nýti heilbrigðisþjónustuna meira en þeir, séu sendar í fleiri rannsóknir, fái oftar sjúkdómsgreiningu og meðferð og sé ávísað lyfjum í meira mæli en körlum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×