Innlent

Á­horf­endur knatt­spyrnu­leikja eitt þeirra mála sem ekki náðist að klára

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir (fyrir miðju) ásamt Víði Reynissyni og Ölmu D. Möller.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir (fyrir miðju) ásamt Víði Reynissyni og Ölmu D. Möller. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist telja að reglur um áhorfendur á knattspyrnuleikjum kunni að hafa verið eitt þeirra atriða sem hefði mátt skoða betur. Þá sagðist Þórólfur ekki telja að misræmi í tölulegum upplýsingum skipti höfuðmáli. Yfirvöld væru fús til að viðurkenna ef þau gerðu mistök.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi dagsins. Þar sagði hann jafnframt að sóttvarnayfirvöldum hafi borist gríðarlegt magn fyrirspurna og beiðna um leiðbeiningar vegna þeirra takmarka sem í gildi eru vegna kórónuveirufaraldursins. Unnið hafi verið með fjölmörgum aðilum að útfærslu ýmissa atriða.

Á dögunum voru hliðin opnuð fyrir knattspyrnuþyrsta áhorfendur, þó með takmörkunum, eftir nokkrar vikur af nánast áhorfendalausum leikjum hér á landi.

„Ég held að þetta hafi verið einn af þessum hlutum sem fór upp á milli og náðist ekki að klára á réttum tíma. Það er ekkert óeðlilegt við það þegar svona mikið er undir og mikið er í gangi í einu að eitthvað aðeins fari úrskeiðis. Mér finnst það ekki vera stóra málið í þessu og við bara lagfærum það.“

Horfa verði á stóru myndina

Þá sagðist Þórólfur ekki telja að smávægilegt misræmi í tölulegri upplýsingagjöf skipti höfuðmáli. Fólk yrði að líta á stóru myndina. Í samtali við fréttastofu í gær sagði Kári Stefánsson að þrír hefðu greinst með kórónuveiruna við seinni landamæraskimun. Kamilla Jósefsdóttir, staðgenginn sóttvarnalæknis, sagði hins vegar að tveir hefðu greinst.

„Við erum fús að viðurkenna ef við gerum einhver mistök og bara lagfærum það. Við reynum að vinna með öllum, gera okkar besta til þess, þannig að allir nái ásættanlegum niðurstöðum,“ sagði Þórólfur



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×