Fótbolti

KR-ingar þurfa að fara til Eistlands í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingar þurfa að fara til Eistlands í næsta mánuði.
KR-ingar þurfa að fara til Eistlands í næsta mánuði. Vísir/Daníel Þór

Íslandsmeistarar KR drógust á móti Flora Tallinn í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar en KR er eina íslenska liðið sem er eftir í keppninni. Þetta ætti að vera ágætis dráttur fyrir KR-inga.

KR-ingar áttu möguleika á að fá heimaleik en höfðu heppnina ekki með sér þar og þurfa að fara til Tallin í Eistlandi. Leikurinn mun fara fram 17. september og verður eini leikurinn því það er ekki spilað heima og að heiman í Evrópukeppninni að þessu sinni útaf kóronuveirunni.

KR kom inn í Evrópudeildina eftir að liðið tapaði á móti Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar en FH, Breiðablik og Víkingur féllu öll út í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

KR-liðið átti líka möguleika á því að mæta sænsku meisturunum í Djurgården sem og liðum Europa frá Gíbraltar og Tre Fiori frá San Marinó.

Djurgården lenti á móti Europa frá Gíbraltar og fékk heimaleik.

Tottenham mætir Lokomotiv Plovdiv frá Búlgaríu, AC Milan lenti á móti Shamrock Rovers frá Írlandi og Rangers mætir Lincoln Red Imps frá Gíbraltar. Tottenham, AC Milan og Rangers verða öll á útivelli.

Blikabanarnir í Rosenborg mæta Ventspils frá Lettlandi og verða á útivelli.

Víkingsbanarnir í Olimpija Ljubljana mæta Zrinjski Mostar frá Bosníu og fá aftur heimaleik.

FH-banarnir í Dunajská Streda mæta Jablonec frá Tékklandi og verða á heimavelli.

Arnór Ingvi Traustason og félagar í Malmö FF mæta Honvéd frá Ungverjalandi og verða á útivelli.

Ragnar Sigurðsson og félagar í FC Kauðmannahöfn mæta IFK Gautaborg á útivelli.

Jón Dagur Þorteinsson og félagar í AGF mæta Nõmme Kalju frá Eistlandi eða Mura frá Slóveníu og verða á útivelli.

Aron Jóhannsson og félagar í Hammarby mæta Lech Poznań frá Póllandi og verða á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×