Innlent

Sjö flutt með þyrlu til Reykja­víkur eftir slys á Suður­landi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Af vettvangi í kvöld.
Af vettvangi í kvöld. Mynd/Lögreglan á Suðurlandi

Lögregla og aðrir viðbragðsaðilar eru nú við störf á vettvangi umferðarslyss við Skaftafell. Smárúta með sjö manns innanborðs fór út af veginum og valt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Í tilkynningunni segir að ökumaður og farþegar séu allir með meðvitund, en einhverjir hafi beinbrotnað þegar bifreiðin fór út af veginum. 

Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar hafa verið kallaðar út. Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum voru öll sjö sem voru í bílnum flutt með þyrlum til aðhlynningar á Landspítalanum.

„Búið er að afturkalla björgunarsveitir í Árnes og Rangárvallasýslu enda talið að bjargir á svæðinu auk sjúkraflutninga sem er á leið á vettvang ráði vel við verkefnið. Opið er fyrir umferð um vettvang en búast má við að tafir verði og jafnvel tímabundnar lokanir fram eftir kvöldi,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum hefur hópslysaáætlun verið virkjuð á Suðurlandi. Aðgerðarstjórn hefur þá verið virkjuð á Selfossi og samhæfingarstöð í Skógarhlíð í Reykjavík.

Fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð á Höfn og verður opnuð í hjá RKÍ í Efstaleiti fyrir aðstandendur hinna slösuðu. 

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 22:22



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×