Erlent

Faraldurinn á fleygiferð í Frakklandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Emmanuel Maccron, forseti Frakklands, fyrir utan lyfjaverksmiðju þar í landi í dag.
Emmanuel Maccron, forseti Frakklands, fyrir utan lyfjaverksmiðju þar í landi í dag. AP/Christian Hartmann

Tilfelli kórónuveirusmita í Frakklandi er í veldisvexti samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu þar í landi. 7.379 tilfelli greindust þar í dag, rétt fyrir neðan met í fjölda daglegra smita sem sett var í mars síðastliðnum.

Alls hafa þá 267 þúsund manns greinst með kórónuveiruna í Frakklandi en undanfarna daga hefur smitum fjölgað mjög. Þannig greindust 6.111 í gær og 5.429 með veiruna á miðvikudag.

Þrátt fyrir hina miklu fjölgun hefur innlögnum á spítala hins vegar ekki fjölgað að ráði, auk þess sem að dauðsföllum fer heldur ekki fjölgandi. Heilbrigðisráðuneytið segir að megnið af þeim sem séu að smitast nú sé yngra fólk.

Alls létust tuttugu í gær af völdum Covid-19 en alls hafa rétt rúmlega 30 þúsund manns látist af völdum faraldursins.

Emmanuel Maccron, forseti Frakklands, segir að ekki sé hægt að útiloka að annað útgöngubann verði sett á í Frakklandi, haldi smitum áfram að fjölga. Hann segir þó að ríkisstjórn hans sé að leita leiða til þess að setja á miklar samfélagslegar takmarkanir, svo efnahagur landsins verði ekki illa úti.

Nú þegar hefur verið gripið til hertra aðgerða víða um Frakkland og er til að mynda grímuskylda á almannafæri í París, höfuðborg Frakklands. Þá hefur sveitarstjórnum verið gefin heimild til þess að loka börum og veitingastöðum svo dæmi séu tekin, á þeim svæðum þar sem smitum fer fjölgandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×