Innlent

Efnilegir göngugarpar úr Kópavogi hafa Laugaveginn út af fyrir sig

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fimm nemendur í Smáraskóla í góðum höndum á leið yfir ána. Sjá má af svip stúlknanna að áin er í kaldara lagi.
Fimm nemendur í Smáraskóla í góðum höndum á leið yfir ána. Sjá má af svip stúlknanna að áin er í kaldara lagi. Vísir/Vilhelm

Nemendur í 8. bekk Smáraskóla eru í þessum töluðu orðum að nálgast Emstrur á árlegri Laugavegsgöngu sinni. Um er að ræða áralanga hefði í Smáraskóla sem oftast er farin við upphaf skólagöngu í 8. bekk. 

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, fylgdist með þessum galvöskum krökkum vaða Bláfjallahvísl í nágrenni Hvanngils í dag. Ekki var að sjá á krökkunum að kuldinn í ánni væri nokkurt vandamál.

Hópurinn gisti fyrstu nóttina í skálanum í Hrafntinnuskeri, þá næstu í skálum við Álftavatn en hvor dagleið er um tólf kílómetrar. Dagleiðin í Emstrur, ganga dagsins, er fimmtán kílómetrar og býður upp á tvær ár sem þarf að vaða. Á morgun stefnir hópurinn svo á að ganga í Langadal í Þórsmörk sem er um 15 kílómetra leið sömuleiðis þar sem vaða þarf eina á á lokasprettinum.

Rólegt er á Laugaveginum á þessum tíma árs og sérstaklega í ár eftir hertar aðgerðir á landamærum. Fyrir vikið má segja að krakkarnir úr Kópavogi hafi þessa vinsælustu gönguleið Íslands út fyrir sig. 

Gengið hefur á með skúrum hjá hópnum í dag sem heldur ótrauður áfram göngu sinni.

Þessi garpar virtust hafa gaman af því að þvera ána.Vísir/Vilhelm


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×