Innlent

Faraldurinn á niðurleið við óbreyttar aðstæður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sýnatökur hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu við Suðurlandsbraut.
Sýnatökur hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu við Suðurlandsbraut. Vísir/Vilhelm

Næstu vikur er líklegt að daglegur fjöldi nýgreindra smita verði á bilinu 1 til 6, en gætu orðið hátt í 13, þótt á því séu minni líkur. Haldist aðstæður óbreyttar má ætla að faraldurinn sé á niðurleið. Eftir þrjár vikur er uppsafnaður fjöldi smita í annarri bylgju líklegur til að vera á bilinu 200 til 260 tilvik en gæti orðið allt að 350. Þetta ræðst af því hversu vel tekst til við að viðhalda opinberum og einstaklingsbundnum sóttvörnum auk mögulegra áhrifa vegna upphafs nýs skólaárs.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í uppfærðu spálíkani vegna faraldursins hér á landi. Spáin byggin á því að aðstæður á Íslandi verði svipaðar og þær hafa verið að undanförnu en óvissan sé þó engu að síður mikil. Víða sé skólastarf hafið eða í þann mund að hefjast og því ljóst að aðstæður muni breytast eitthvað.

„Af þeim sökum er erfitt að segja til um hvort vöxturinn haldist stöðugur til lengri tíma og óljóst er hvort við séum á leiðinni upp í langa og stóra bylgju eða á toppnum á lítilli bylgju. Spáin bendir þó til þess að faraldurinn sé á niðurleið ef aðstæður haldast óbreyttar.“

Auknar líkur á engum, áfram líkur á mörgum

Þannig hafi líkurnar á því að ekkert smit greinist á einum degi aukist, frá því að vera um 5 prósent upp í tæp 15 prósent. Engu að síður sé áfram sá möguleiki fyrir hendi að mörg smit greinist á einum degi. Síðustu tvær vikur hafa á bilinu einn til tíu einstaklingar greinst daglega með veiruna innanlands. Mest hafa greinst sextán á einum degi í þessari bylgju faraldursins, þann 6. ágúst.

Hópurinn að baki spálíkaninu telur ekki tímabært að spá fyrir um fjölda spítalainnlagna á þessum tímapunkti. Ef gögnin bendi til hraðari vaxtar þá verður þörfin á spá fyrir spítalainnlagnir endurmetin. Spáin verður næst uppfærð eftir viku.

Sem stendur eru 113 í einangrun með virkt kórónuveirusmit og 1027 í sóttkví. Enginn er inniliggjandi á spítala með veiruna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×