Fótbolti

Alfons og félagar með stórsigur og Hólmbert skoraði í tapi

Ísak Hallmundarson skrifar
Hólmbert skoraði í dag.
Hólmbert skoraði í dag. getty/Lars Ronbog

Alfons Sampsted og liðsfélagar hans í Bodö/Glimt halda áfram að rúlla yfir norsku úrvalsdeildina í fótbolta.

Alfons lék allan leikinn í 6-0 sigri Bodö á Start í dag, en Jóhannes Harðarson er þjálfari Start. Staðan 2-0 fyrir Bodö í hálfleik og þeir bættu við fjórum mörkum á fyrsta korteri seinni hálfleiks þegar þeir sundurspiluðu Start. Bodö/Glimt er á toppi deildarinnar með 41 stig eftir 15 umferðir og markatöluna 53:18. Lygilegur árangur hjá Alfonsi og félögum. Start er á meðan í næstneðsta sæti með tólf stig.

Hólmbert Aron Friðjónsson kom Álasund yfir gegn FK Haugesund á tólftu mínútu leiksins í dag en lokatölur urðu á endanum 3-1 sigur Haugesund og Álasund situr á botni deildarinnar með sjö stig. Hólmbert og Daníel Grétarsson spiluðu allan leikinn fyrir Álasund og Davíð Kristján Ólafsson kom inn á sem varamaður í hálfleik.

Matthías Vilhjálmsson spilaði allan leikinn fyrir Valerenga þegar liðið lagði Sandefjord af velli. Emil Pálsson var í byrjunarliði og spilaði allan leikinn fyrir Sandefjord og því um Íslendingaslag að ræða. Lokatölur 2-1 sigur Valerenga, Sandefjord komst yfir á 10. mínútu en Baard Finne skoraði á 83. og 89. mínútu fyrir Valerenga og tryggði þannig sigurinn. Valerenga í 4. sæti deildarinnar með 26 stig en Sandefjord í 13. sæti með 16 stig.

Axel Andrésson spilaði allan leikinn fyrir Viking er liðið vann Strömsgodset á útivelli, 2-0. Viking er í tólfta sæti en Strömsgodset í tíunda sæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×