Innlent

Samið um allt að 112 þúsund króna hækkun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, undirritar hér nýja kjarasamninginn í nótt.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, undirritar hér nýja kjarasamninginn í nótt. Vísir/jkj
Launahækkanir, styttri vinnuvika, yfirvinnutímar auk námskeiða og fræðslu eru meðal þess sem Efling og Reykjavíkurborg náðu saman um í nótt. Eins og Vísir greindi frá á fjórða tímanum tókst deiluaðilum að undirrita nýjan kjarasamning, eftir rúmlega mánaðarlangar verkfallsaðgerðir Eflingar.

Með undirritun samnings er verkfallsaðgerðum Eflingar gagnvart Reykjavíkurborg, sem settu margvíslegan svip á daglegt líf í höfuðborginni, lokið. Samningurinn verður nú kynntur félagsmönnum og borin undir atkvæði þeirra.

Efling sendi fjölmiðlum yfirlýsingu í nótt þar sem stiklað er á stóru um innihald kjarasamningsins sem sagt er „mikilvægt skref í átt að kjaraleiðréttingu láglaunafólks og kvennastétta.“ Kjaradeilu Eflingar við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu er þó enn ólokið.

Sjá einnig: Ótímabundnu verkfalli félagsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg aflýst

Meðal þess sem samið var um í nótt er eftirfarandi, að sögn Eflingar:

Með samningnum hækka byrjunarlaun Eflingarfélaga í lægstu launaflokkum um allt að rúmlega 112.000 krónur á samningstímanum miðað við fullt starf. Hækkunum umfram 90 þúsund króna taxtahækkun að fyrirmynd almenna vinnumarkaðarins er náð fram með töflubreytingu sem skapar að meðaltali um 7.800 krónur í viðbótargrunnlaunahækkun hjá öllum Eflingarfélögum og einnig er samið um sérstaka viðbótarhækkun lægstu launa í formi sérgreiðslu.

Sérgreiðslan sem um samdist er 15.000 krónur í lægstu launaflokkum og fjarar út eftir því sem ofar dregur í launaflokkum. Sérgreiðslan kemur á 26 starfsheiti Eflingar önnur en þau sem þegar hafa sérstaka kaupauka. Hún mun skila sér í stiglækkandi mynd til tæplega þriggja af hverjum fjórum Eflingarfélagum hjá borginni.

Margvíslegar kjarabætur aðrar en grunnlaunahækkanir eru í samningnum, svo sem stytting vinnuvikunnar, útfærð bæði fyrir dagvinnu- og vaktavinnufólk. Greiðsla 10 yfirvinnutíma á mánuði til leikskólastarfsfólks er nú tryggð í kjarasamningi í formi nýrrar sérgreiðslu. Námskeiðum og fræðslu er gefið aukið vægi í launamyndun einstakra starfsmanna.

Samningurinn nær til um 1.850 Eflingarfélaga í störfum hjá Reykjavíkurborg. Langflestir þeirra eru konur í sögulega vanmetnum kvennastörfum við umönnun, þrif, þvotta og mötuneytisstörf. Aðrir starfa m.a. við gatnaviðhald og sorphirðu. Gildistími samningsins er til 31. mars 2023.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×