Erlent

Afganski forsetinn hafnar samkomulagi um fangaskipti

Andri Eysteinsson skrifar
Ghani hélt sameiginlegan blaðamannafund með Jenst Stoltenberg og Mark Esper í Kabúl í gær
Ghani hélt sameiginlegan blaðamannafund með Jenst Stoltenberg og Mark Esper í Kabúl í gær Getty/Anadolu

Forseti Afganistan segir það ekki rétt að ríkið hafi lofað að frelsa 5000 Talíbana úr fangelsum ríkisins líkt og haldið er fram í friðarsamningi milli Bandaríkjanna og Talíbana.

Í friðarsamningnum sem undirritaður var í Katar í gær sagði að fimm þúsund Talíbönum yrði sleppt úr fangelsum í skiptum fyrir 1000 ríkisstarfsmenn. BBC greinir frá að fangaskiptin ættu samkvæmt samkomulaginu að fara fram fyrir 10.mars næstkomandi.

Ashraf Ghani, forseti Afganistan, neitaði því að ríkið hefði samþykkt fangaskiptin og sagði það undir afgönsku ríkisstjórninni komið en ekki þeirri bandarísku. „Fangaskiptin geta verið umræðuefni í viðræðum milli ríkisstjórnar okkar og Talíbana en ekki forsenda þeirra,“ sagði Ghani.

Talið er að allt að 10.000 Talíbanar séu í haldi í Afganistan. Í samningnum sem undirritaður var í gær kváðust Bandaríkin reiðubúin til að kalla alla sína hermenn aftur heim standi Talíbanar við ákveðnar skuldbindingar, þar á meðal að semja um frið við afgönsku ríkisstjórnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×