Erlent

Útlit fyrir nokkuð jöfn skipti hjá Demókrötum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Svona gætu niðurstöðurnar orðið samkvæmt FiveThirtyEight. Bernie með sjö ríki, Biden sex og svo annar hvor þeirra með eitt stykki Texas í viðbót.
Svona gætu niðurstöðurnar orðið samkvæmt FiveThirtyEight. Bernie með sjö ríki, Biden sex og svo annar hvor þeirra með eitt stykki Texas í viðbót. Vísir/Hafsteinn

Fjórtán ríki greiða atkvæði í forvali Demókrata fyrir bandarísku forsetakosningarnar í dag. Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, og Bernie Sanders öldungadeildarþingmaður eru sigurstranglegastir.

Kosningaspá tölfræðivefsins FiveThirtyEight sýnir þessa stöðu. Sanders er talinn sigurstranglegastur í sjö ríkjum og Biden sex. Þeir eru svo álíka líklegir í Texas. Auk ríkjanna fjórtán fer fram forval á landsvæðinu Ameríska Samóa. Þar eru Biden og Sanders einnig taldir jafnsigurstranglegir.

Auðjöfurinn Mike Bloomberg, sem hefur varið hundruðum milljóna dala úr eigin vasa í kosningabaráttuna, og Elizabeth Warren öldungadeildarþingmaður teljast hvergi sigurstranglegust.

Frambjóðendahópurinn hefur minnkað nokkuð frá því Biden vann í Suður-Karólínu á laugardag. Tom Steyer athafnamaður, Amy Klobuchar öldungadeildarþingmaður og Pete Buttigieg borgarstjóri eru hætt.

Klobuchar og Buttigieg lýstu yfir stuðningi við Biden. Enn er of snemmt að segja hvaða áhrif þetta hefur á forvalið. Þó er ljóst að fjarvera þessara þriggja frambjóðenda gerir það líklegra að Bloomberg og Warren nái yfir fimmtán prósenta þröskuldinn í fleiri ríkjum, og uppfylli þannig skilyrði fyrir því að vinna sér inn fulltrúa á landsfund Demókrata.

Það eru þeir fulltrúar sem sjá formlega um að útnefna frambjóðanda. Keppst er um þriðjung allra landsfundarfulltrúa í dag og gætu línurnar verið farnar að skýrast enn frekar þegar niðurstöður liggja fyrir í nótt. Fyrstu ríkin til að kynna niðurstöður munu væntanlega gera það upp úr miðnætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×