Innlent

Veislustjórar á köldum klaka vegna kórónuveirunnar

Jakob Bjarnar skrifar
Fjölmargir hafa lifibrauð af skemmtanahaldi landsmanna. Mars er einn helsti mánuðurinn í þeim efnum en nú hrannast upp afbókanirnar. Fólk fær ekki greitt fyrir að troða upp fyrir tómum sal.
Fjölmargir hafa lifibrauð af skemmtanahaldi landsmanna. Mars er einn helsti mánuðurinn í þeim efnum en nú hrannast upp afbókanirnar. Fólk fær ekki greitt fyrir að troða upp fyrir tómum sal. Getty/Jacobs Stock Photography Ltd

„Fyrir verktaka í skemmtanabransanum er þessi veira eins og stórbruni,“ segir Sigrún Skaftadóttir sem starfar meðal annars sem DJ. Hún kann að orða það.

Fyrirtæki eru að hætta við fyrirhugaðar skemmtanir, eitt af öðru. Fréttir af því að skemmtanahaldi, fundum og mannfagnaði hafi verið aflýst hrannast upp. Þeir sem hafa haft lifibrauð sitt af því að annast slíkar skemmtanir og koma þar fram, svo sem veislustjórar og skemmtikraftar, eru að sjá fram á hamfarir í þeim efnum. Í marsmánuði sem að öllu eðlilegu er undirlagður af skemmtanahaldi. Fyrirtæki í faginu hafa þurft að færa inn í sitt bókhald milljóna tap og þeir sem hafa af þessu lifibrauð lenda í fyrirsjáanlegum vanda.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra steig fram á sjónarsviðið í vikunni til að slá á allan vafa um að þeir sem eru í sóttkví vegna kórónuveirunnar haldi launum sínum. Þetta var í kjölfar umræðu um það atriði en Samtök atvinnulífsins telja að ríkissjóður þurfi að mæta slíku tjóni. En, þetta nær eins langt og það nær. Því hér er verið að ræða um launþega. Verktakar eru hins vegar á köldum klaka.

Verktakar þurfa að dekka sinn kostnað sjálfir

Þannig hefur þetta verið til umræðu víða og þá auðvitað á Facebook. Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri með meiru og fyrrverandi ráðherra, þekkir gjörla hvernig kaupin gerast á þeirri eyrinni. Hún eyddi öllum vafa með athugasemd þar sem þetta var til umræðu:

„Verktakasamningar eru þess eðlis að þeir þurfa að dekka allan hugsanlegan kostnað sem verktakinn getur þurft að bera af starfsemi sinni, þ.m.t. réttindi vegna veikinda og slysa sem tryggingar bæta ekki. Starfsgreinasambandið hefur gefið það út til viðmiðunar fyrir sitt fólk að álag ofan á launalið samninga þurfi að vera að lágmarki 55% en í sumum tilfellum þurfi það að vera mun hærra, allt eftir eðli verkanna. Mergurinn málsins er sá að samningar um verktöku eru í grundvallaratriðum ólíkir samningum launþega, sem stéttarfélög gera við atvinnurekendur.“

Bræðurnir Jón Ragnar og Friðrik Dór eru með vinsælustu skemmtikröftum þjóðarinnar, bæði sem veislustjórar og tónlistarmenn. Fjöldi skemmtana sem til stóð að þeir kæmu fram á hafa nú verið flautaðar af. Þeir þurfa að taka það tjón á kassann.visir/sylvía Hall

Þetta þýðir með öðrum orðum að verktakar bera ábyrgð á sínum launatengdu gjöldum og þar með er ekki um neinar bætur að ræða.

Afbókað í stórum stíl

Árni Björn Helgason er einn umsvifamesti umboðsmaður Íslands. Fyrir nokkrum árum stofnaði hann Creative Artists Iceland sem er að hans sögn fyrsta og eina umboðsskrifstofa sinnar tegundar á Íslandi. Stofan brúar bil milli leikara, leikstjóra, áhrifavalda og annars konar skemmtikrafta og svo þjóðþekktra einstaklinga.

Árni er með um hundrað listamenn á skrá hjá sér og þar á meðal eru margir sem koma fram á skemmtunum af þessu tagi svo sem Dóri DNA, Saga Garðarsdóttir, Hugleikur Dagsson og Jóhann Alfreð svo fáeinir séu nefndir. Þeir sem helst eru fengnir í veislustjórn eru skemmtikraftar og sjónvarpsmenn.

Árni Björn segir þetta ástand koma afskaplega illa við sitt sínu fyrirtæki og þá sem hann er með á skrá. Vísir hefur til dæmis frétt af einum þekktum og vinsælum veislustjóra sem var með skráð sex „gigg“ í mars eins og það er kallað en eftir stendur eitt. Afbókanir hafa hrannast upp í vikunni; það hófst á mánudaginn.

Margir listamenn eru þungt hugsi.

Árni Björn segir ástandið skelfilegt. Og svo virðist sem þau fyrirtæki sem fella niður skemmtanir telji það hið eðlilegasta í stöðunni. Skemmtikraftarnir sitja uppi með skaðann.

„Þetta virðist vera stemmningin,“ segir Árni Björn. Fyrirtæki hætta við og að sögn Árna Björns er þar á bæ litið svo á að það skuli ekki hafa neinar afleiðingar vegna stöðunnar sem upp er komin. Sem honum finnst sérstakt í ljósi þess að ekki er búið að gefa út neitt frá yfirvöldum í þeim efnum, að sérstaklega sé varað við skemmtanahaldi. „En sumir taka þann pól í hæðina. Ég segir það ekki, ég skil það en þetta er högg.“

Lifibrauð fjölda fólks í húfi

Árni Björn segir þetta bagalegt því oft sé það þannig að skemmtikraftar hafi hafnað öðrum verkefnum vegna þess að þeir voru búnir að ráða sig annað. En, það er svo slegið af.

Þessi erfiða staða snertir ekki alla þá sem hann er með á sínum snærum en marga. Búið er að blása af stórar samkomur.

„Þetta eru stórfyrirtæki. Á síðastliðnum þremur dögum tíu stór gigg sem mann hreinlega verkjar í og nokkur lítil sem hafa dottið upp fyrir. Og þetta snertir ekki bara listamenn heldur alla þá sem hafa umsjá með þessu og annast alla umgjörð.“

Félagarnir í Mið Íslandi eru duglegir við að koma fram við öll hugsanleg og óhugsanleg tækifæri. Það er ekki mikið hringt núna nema til að afbóka.visir/vilhelm

Vitaskuld kemur þetta misilla við menn. En, í tilfelli margra er um þeirra lifibrauð að ræða, að koma fram um helgar. Vísir bað Árna Björn að slá á það um hversu stóran hóp sé að ræða og hann metur það svo að um 70 manns sé að ræða, þá skemmtikraftar og veislustjórar, ef þeir eru taldir með sem koma að þessu á annan hátt þá miklu fleiri. Katastrófa.

„Já, okkur líður svolítið þannig. Og að ekki sé rík ástæða enn sem komið er, til að hætta við.“

Stórar skemmtanir slegnar af

Árni Björn segir að skemmtanahaldið og sú starfsemi því tengist sé ágætur barómetir. Þar sé fyrst skorið niður í krísu. Og boltinn er greinilega byrjaður að rúlla.

Máni Pétursson, sem rekur umboðsskrifstofuna Paxal, sem einkum sér um að bóka hina hafnfirsku bræður Jón Ragnar og Friðrik Dór Jónssyni, segist vissulega hafa átt sína andvökunótt. En, hann sé að jafna sig að mestu. Þetta sé auðvitað högg sem komi á vondum tíma en marsmánuður sé mikill árshátíðamánuður en þá er mikið bókað. Stórar skemmtanir hafa verið slegnar af þar af nokkur fyrirtæki sem Paxal hefur verið að skipta við. En, Máni kýs reyndar að nota ekki orðið afbókun heldur frestun. Mörg þeirra fyrirtækja hafa fært sínar skemmtanir fram á næsta haust.

Máni rekur umboðsskrifstofuna Paxal og hefur þurft að bregðast við samdrætti af áður óþekktri stærðargráðu. Hann hefur átt sína andvökunótt vegna stöðunnar en segir að menn verði að sýna stillingu í erfiðri stöðu.visir/vilhelm

„Já, það er búið að fresta töluvert stórum árshátíðum. Menn eru farnir að reyna að finna nýjar dagsetningar, í september eða í haust. Pósturinn kanseleraði, hætti við sína árshátið. Við erum með bókað hjá Læknafélaginu en ég geri ráð fyrir afbókun þaðan. Af skiljanlegum ástæðum.“

Atburðir settir á ís

Máni kýs að líta á þetta sem tímabundinn vanda, kórónuveiran sé ekki komin til að vera og fólk muni halda áfram að skemmta sér.

„Við bregðumst við hverri frestun, af mikill auðmýkt. Það er ekki hægt að gera neitt annað. Við verðum öll að vera með í þessu partíi.“

Máni segir meira um að stórum skemmtunum sé frestað, ekki svo mjög með þær minni. Máni brást strax við með því að skera niður hjá sinu litla og sveigjanlega fyrirtæki. Og viðburðir sem til stóð að kynna hafa verið settir á ís.

„Mars verður erfiður, það er bara þannig. Sem er verra því þetta er alla jafna stór mánuður. En þessir skjólstæðingar mínir eru svo umburðarlynt og gott fólk og eru ekkert að kveinka sér undan þessu. Ég er að hugsa um að senda þá í vetrarfrí. Besti mánuðurinn fyrir þá að fara í frí. Bræðurnir… þeir eru báðir með tvö lítil börn og eru í góðum fíling heima hjá sér. Við sem erum í þessum bransa, við verðum að vera rólegir. Þetta er lægð og við verðum að lifa hana af,“ segir Máni og reynir að líta til bjartari tíðar með blómum í haga.


Tengdar fréttir

Öllum verða tryggð laun í sótt­kví

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld muni tryggja að allir sem þurfi að fara í sóttkví haldi launum sínum. Gengið verði frá útfærslu á framkvæmdinni í dag eða á morgun.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.