Innlent

Landsmenn fá ýmist él eða léttskýjað og sólríkt veður

Eiður Þór Árnason skrifar
Eflaust munu einhverjir njóta dagsins niður við tjörnina í dag.
Eflaust munu einhverjir njóta dagsins niður við tjörnina í dag. Vísir/vilhelm

Í dag er spáð norðaustan 8-15 m/s en dregur úr vindi eftir hádegi. Má búast við dálitlum éljum um landið norðan- og austanvert, en léttskýjað og sólríkt sunnan heiða. Frost 0 til 5 stig í dag en herðir á frosti í kvöld.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofunni að á morgun bæti aftur í vindinn, þá er strekkingur af austri 8 til 15 m/s í kortunum og 15 til 20 m/s hvassviðri með suðurströndinni síðdegis. Einnig ber að taka fram að vindur á norðaustanverðu landinu verður hægur, þar nær austanáttin sér engan veginn á strik. Líkur eru á snjóéljum víða um land, síst þó á Vesturlandi.

Áfram verður kalt á landinu, jafnvel tveggja stafa frosttölur í innsveitum fyrir norðan.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á mánudag: Austlæg átt, víða á bilinu 8-15 m/s, en 15-23 með suðurströndinni síðdegis. Líkur á éljum í flestum landshlutum. Frost 0 til 8 stig, kaldast í innsveitum norðaustanlands.

Á þriðjudag: Norðaustan 13-20, en 18-25 suðaustantil á landinu. Él eða snjókoma, en úrkomulítið vestanlands. Frost 0 til 4 stig.

Á miðvikudag: Áframhaldandi hvöss norðaustanátt með snjókomu eða éljum, en úrkomulaust sunnan heiða. Frost 1 til 6 stig.

Á fimmtudag: Minnkandi norðlæg átt með éljum norðantil á landinu, en léttskýjað syðra. Kólnar talsvert.

Á föstudag og laugardag: Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en dálítil él við sjávarsíðuna. Mjög kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×