Erlent

Trump gagn­rýndur fyrir að ætla að náða Susan B Ant­hony

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Donald Trump hyggst náða Susan B Anthony kvenréttindafrumkvöðul en hún var dæmd til að greiða hundrað dollara sekt fyrir ólöglega atkvæðagreiðslu árið 1872. Hún greiddi sektina aldrei í mótmælaskyni.
Donald Trump hyggst náða Susan B Anthony kvenréttindafrumkvöðul en hún var dæmd til að greiða hundrað dollara sekt fyrir ólöglega atkvæðagreiðslu árið 1872. Hún greiddi sektina aldrei í mótmælaskyni. Getty/Alex Wong/Congress

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að náða Susan B Anthony, brautryðjanda í kvenréttindabaráttu vestanhafs. Trump tilkynnti ákvörðuninna í dag, á aldarafmæli nítjándu viðbótar stjórnarskrár Bandaríkjanna sem tryggði konum kosningarétt.

Anthony, sem lést þann 13. mars 1906 þá 86 ára gömul, var handtekin árið 1872 eftir að hún greiddi atkvæði sem hún mátti ekki samkvæmt lögum. Hún var síðar sakfelld fyrir ólöglega atkvæðagreiðslu í New York ríki af kviðdómi sem einungis karlmenn sátu í. Hún var jafnframt sektuð um 100 Bandaríkjadali.

Í ræðu sem hún hélt fyrir dómnum fordæmdi hún ríkið fyrir að koma í veg fyrir að konur fengju að kjósa og hét því að hún myndi aldrei greiða krónu af sektinni.

Meðlimir Alþjóðlegs ráðs kvenna í kring um aldamótin 1900. Susan B Anthony situr fyrir miðju.Getty/Library of Congress

Handtakan vakti mikla athygli á sínum tíma og varð til þess að Anthony varð þjóðþekkt. Í kjölfarið stofnaði hún tvær stærstu kvenréttindahreyfingarnar vestanhafs og ferðaðist um Bandaríkin þar sem hún hélt fjöldafundi og flutti ræður.

Anthony lést fjórtán árum áður en nítjánda viðbót stjórnarskrárinnar var tekin í gildi þann 18. ágúst 1920.

„Konur ráða ríkjum í Bandaríkjunum“

Í síðustu viku lýsti Trump jafnframt yfir stuðningi sínum við það að reistur yrði minnisvarðir í Washingtonborg til að minnast kvenréttindabaráttukvennanna sem börðust fyrir kosningaréttinum.

„Konur ráða ríkjum í Bandaríkjunum – ég held að við getum sagt það með vissu,“ sagði Trump og nefndi þar dæmi um að metfjöldi kvenna sæti nú á þingi. Einhverjar efasemdaraddir hafa heyrst um einlægni Trumps og segja að hann sé aðeins að reyna að ná aftur atkvæðum kvenna sem búa í úthverfum, en niðurstöður skoðanakannana benda til þess að sá hópur hafi minnkað meðal stuðningsmanna Trump.

Kathy Hochul, vararíkisstjóri New York, virtist ekki par sátt við ákvörðun Trumps. „Sem háttsettasti kvenembættismaður í New York og fyrir hönd arfleifðar Susan B Anthony, krefjumst við þess að Trump afturkalli náðun sína.“

„Hún var stolt af handtökunni vegna þess að hún vakti athygli á réttindabaráttu kvenna og þar að auki greiddi hún aldrei sektina sem fylgdi. Leifið henni að hvíla í friði.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×