Innlent

Reglugerðin leggi ekki skyldur á einstaklinga

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Reglugerðin, sem byggir á tillögum sóttvarnalæknis, leggur ekki skyldu á einstaklinga þegar kemur að fjarlægðarmörkum.
Reglugerðin, sem byggir á tillögum sóttvarnalæknis, leggur ekki skyldu á einstaklinga þegar kemur að fjarlægðarmörkum. Vísir/Vilhelm

Helsta krafan með tveggja metra reglunni er að rekstraraðilar tryggi að hægt sé að tryggja fjarlægðartakmörk milli einstaklinga sem ekki deila heimili. Þannig er engin bein skylda lögð á einstaklinga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti sóttvarnalæknis. Talið var tilefni til þess að útskýra reglurnar betur þar sem nokkurs misræmis hefur gætt í orðalagi reglna um fjarlægðartakmörk.

„Krafan með reglunni, eins og fram kemur í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins, er að aðilum í atvinnurekstri, hvaða rekstri sem það nær yfir, er skylt að tryggja fjarlægðarmörk á milli einstaklinga sem ekki deila heimili,“ segir í tilkynningunni.

Þar er jafnframt tekið fram að í reglugerð heilbrigðisráðherra komi ekki fram að einstaklingar þurfi að uppfylla takmörkin, heldur sé krafan lögð á starfsemi. Hins vegar hafi sóttvarnalæknir gefið út leiðbeiningar þar sem biðlað er til fólks um að viðhafa fjarlægðartakmörk á milli fólks.

Eins er tíundað í að í leiðbeiningum yfirvalda til almennings hafi gætt nokkurs misræmis. Ýmist hafi verið talað um að viðhafa skuli fjarlægðartakmörk milli „óskyldra aðila, ótengdra aðila eða aðila sem ekki deili heimili.“ Þetta misræmi í orðalagi sé tilefni til útskýringar.

„Einstaklingar eru því sérstaklega hvattir til virða fjarlægðarmörkin í umgengni við ókunnuga en í umgengni við tengda/skylda einstaklinga þarf að vega og meta hvort viðhafa skuli fjarlægðarmörk. Meðan tveggja metra reglan er í gildi getur rekstraraðili ekki skorast undan því að tryggja fjarlægðarmörkin og við því liggur sektarheimild. Ekki liggur fyrir sektarheimild fyrir einstaklinga sem virða ekki fjarlægðarmörk,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×