Erlent

Merkel fordæmir árásina í Hanau

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Angela Merkel kanslari sagði margt benda til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða.
Angela Merkel kanslari sagði margt benda til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Vísir/AP

Öfgaþjóðernishyggjumaður er grunaður um að hafa myrt níu manns á tveimur skemmtistöðum í bænum Hanau, nærri Frankfurt, í Þýskalandi í gærkvöldi áður en hann stytti sér aldur. Angela Merkel kanslari fordæmdi árásina í dag og sagði kynþáttahatur eitur fyrir þýskt samfélag.

Sá grunaði var 43 ára gamall en auk fjöldamorðsins á skemmtistöðunum er hann grunaður um að hafa myrt móður sína. Tala látinna stendur því í ellefu að meintum árásarmanni meðtöldum. Saksóknarar í Þýskalandi rannsaka málið með hryðjuverk.

Helmingur fórnarlamba voru tyrkneskir ríkisborgarar en samkvæmt Þýskalandskanslara bendir margt til þess að kynþáttahatur hafi drifið árásina.

Meintur árásarmaður hafði deilt öfgafullum samsæriskenningum á samfélagsmiðlum og skildi, samkvæmt þýskum miðlum, eftir bréf í húsi sínu þar sem hann játaði sök.

Í ávarpi sagði Merkel að rannsókn á málinu yrði í algjörum forgangi. „Rasismi og hatur eru eitur. Þetta eitur má finna í okkar samfélagi og hefur leitt til of margra glæpa.“

Claus Kaminsky, bæjarstjóri Hanau, sagði hug bæjarbúa hjá fjölskyldum og vinum hinna látnu. „Þetta eru án nokkurs vafa verstu stundir í sögu bæjarins á friðartímum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×