Innlent

Lögregla sinnti útkalli vegna unglingaslagsmála í Hafnarfirði

Kjartan Kjartansson skrifar
Slagsmálunum var lokið þegar lögreglu bar að garði. Myndin er úr safni.
Slagsmálunum var lokið þegar lögreglu bar að garði. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Enginn er sagður hafa meiðst í slagsmálum ungmenna í Hafnarfirði í kvöld. Ungmennin eru sögð hafa verið með grímur og klúta fyrir andlitunum en slagsmálin voru afstaðin þegar lögreglumenn bar að garði.

Tilkynningin um slagsmálin barst klukkan 19:42 í kvöld. Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að engin meiðsl hafi hlotist af slagsmálunum.

Ríkisútvarpið birti í kvöld myndband af árás hóps ungra pilta á fjórtán ára dreng við Hamraborg í síðustu viku. Fórnarlamb árásarinnar er sagt þjást af höfuðverk og ógleði. Faðir drengsins segir að árásina megi mögulega rekja til útlendingaandúðar.

Í tilkynningu lögreglu kemur einnig fram að þriggja bíla árekstur hafi orðið á Bústaðarvegi rétt eftir klukkan átta í kvöld. Ökumenn og farþegar hafi verið fluttir á slysadeild til skoðunar en þeir hafi aðeins hlotið minniháttar áverka.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.