Innlent

Þriðji drengurinn sem bjargað var úr höfninni á leið í endurhæfingu á Grensásdeild

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mikið fjölmenni kom saman í Hafnarfjarðarkirkju kvöldið eftir slysið til að sýna drengjunum og fjölskyldum þeirra samhug.
Mikið fjölmenni kom saman í Hafnarfjarðarkirkju kvöldið eftir slysið til að sýna drengjunum og fjölskyldum þeirra samhug. Vísir/Sigurjón

Drengur sem bjargað var úr bíl sem hafnaði í Hafnarfjarðarhöfn í janúar er á leið af Barnaspítala Hringsins þaðan sem hann heldur í endurhæfingu á Grensásdeild. Deildarstjóri sálgæslu djákna og presta á Landspítalanum segir fjölskylduna finna fyrir stuðningi í samfélaginu. Batinn sé hægur en góður.

Það var föstudagskvöldið 17. janúar sem bíll fór fram af Óseyrarbryggju í Hafnarfirði. Þrír táningar voru í bílnum. Einn komst upp úr sjónum af sjálfsdáðum en hinum tveimur var bjargað af köfurum sem kallaðir voru á vettvang.

Sá sem komst sjálfur út úr bílnum var í sólarhring á Landspítalanum áður en hann var útskrifaður. Hinir voru lagðir inn á gjörgæsludeild og í framhaldinu fluttir á Barnaspítala Hringsins.

Frá vettvangi í Hafnarfjarðarhöfn þann 17. janúar.Óskar Páll Elfarsson

Tvær vikur er síðan annar drengurinn fór heim af Barnaspítalanum. Hinn drengurinn er á leiðinni af barnaspítalanum á endurhæfingu á Grensásdeild Landspítalans.

Rósa Kristjánsdóttir, deildarstjóri sálgæslu djákna og presta á Landspítalanum, segir um gleðileg tíðindi að ræða.

„Það er alltaf stór áfangi,“ segir Rósa. Drengurinn hafi verið í endurhæfingu á Landspítalanum og nú taki hann skrefið yfir á Grensásdeild hjá „öllu því fagfólki“ sem þar starfar.

Rósa lýsir framförum drengsins sem mjög hægum en góðum.

„Við vitum að góðir hlutir gerast hægt.“

Hún segir fjölskyldu drengsins finna fyrir miklum stuðningi og hlýhug úr samfélaginu sem sé mjög mikilvægt.

„Við erum full bjartsýni.“


Tengdar fréttir

Opna Fríkirkjuna vegna slyssins á Óseyrarbryggju í Hafnarfirði

Bíllinn sem hafnaði í Hafnarfjarðarhöfn við Óseyrarbryggju í kvöld var nú skömmu eftir miðnætti hífður upp úr sjónum með kranabíl. Samkvæmt heimildum fréttastofu opnuðu prestar í Hafnarfiði Fríkirkjuna vegna slyssins á Óseyrarbryggju í kvöld. Rauði krossinn á Íslandi var til til aðstoðar til að veita sálrænan stuðning.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×