Innlent

Bíll fór í höfnina í Hafnarfirði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Hafnarfjarðarhöfn nú á tíunda tímanum.
Frá Hafnarfjarðarhöfn nú á tíunda tímanum. Óskar Páll Elfarsson

Bíll fór í höfnina við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði í kvöld. Þrír voru í bílnum og hafa þeir allir verið fluttir á slysadeild með sjúkrabíl. Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan þeirra. Lögregla segir um að ræða „mjög alvarlegt slys“.

Varðstjóri á slökkviliðinu segir í samtali við Vísi að tilkynning hafi borist um málið rétt rúmlega níu í kvöld. Honum var ekki kunnugt um tildrög þess að bíllinn lenti í höfninni.

Fimm kafarar frá séraðgerðadeild Landhelgisgæslunnar voru kallaðir út að beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Þeir voru enn að störfum í höfninni um klukkan tíu, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Þá eru kafarar frá sérsveit ríkislögreglustjóra einnig á vettvangi.

Myndir frá vettvangi nú á tíunda tímanum sýna að mikill viðbúnaður er í höfninni og fjölmennt lið lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutningamanna að störfum.

Uppfært klukkan 22:27:

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var ungt fólk í bílnum. Viðbragðsaðilar hyggjast fljótlega hefjast handa við að hífa bílinn upp úr sjónum. Höfninni hefur nú verið lokað.

Eftirfarandi tilkynning um málið barst frá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu klukkan 22:35:

Mjög alvarlegt slys varð í Hafnarfirði á tíunda tímanum í kvöld þegar bifreið fór fram af Óseyrarbryggju og hafnaði í sjónum. Tilkynning um slysið barst kl. 21.07 og fór fjölmennt lið viðbragðsaðila þegar á staðinn en vinna á vettvangi stendur enn yfir.

Þeir sem voru í bílnum voru fluttir á slysadeild en engar frekari upplýsingar um málið er hægt að veita að svo stöddu.

Mikill viðbúnaður er í höfninni. Óskar Páll Elfarsson


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.