Fótbolti

Draumabyrjun Arons á tímabilinu | Matthías skoraði á Spáni

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Jóhannsson skoraði sín fyrstu mörk fyrir Hammarby í dag.
Aron Jóhannsson skoraði sín fyrstu mörk fyrir Hammarby í dag. twitter/@hammarbyfotboll

Aron Jóhannsson fékk óskabyrjun á nýrri leiktíð með Hammarby í Svíþjóð í dag þegar hann skoraði tvö mörk í 5-1 sigri gegn Varberg í sænsku bikarkeppninni.

Þetta voru jafnframt fyrstu mörk Arons fyrir Hammarby en hann kom til félagsins frá Werder Bremen síðasta sumar, eftir fjögurra ára dvöl í Þýskalandi. Þessi 29 ára gamli framherji hefur verið afar óheppinn með meiðsli á sínum ferli og mörkin í dag voru sjálfsagt langþráð enda Aron ekki skorað í alvöru leik í tæplega tvö ár.

Leikið er í riðlakeppni á 2. stigi sænska bikarsins og mætir Hammarby liði Brommapojkarna á sunnudag, og svo Sundsvall viku síðar í síðasta leik sínum í riðlinum. Efsta liðið kemst í 8-liða úrslit. Sundsvall og Brommapojkarna gerðu 2-2 jafntefli í dag.

Matthías Vilhjálmsson var einnig á skotskónum í dag en hann gerði eina markið í sigri Vålerenga á Sandefjord í æfingaleik á Spáni.

Í dönsku úrvalsdeildinni vann AGF 2-1 útisigur gegn Horsens en Jón Dagur Þorsteinsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá AGF að þessu sinni. Liðið er í 3. sæti deildarinnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.