Fótbolti

Tólf ára strákur ákærður fyrir kynþáttaníð

Sindri Sverrisson skrifar
Rangers unnu langþráðan sigur gegn Celtic en Alfredo Morelos fékk að líta rauða spjaldið.
Rangers unnu langþráðan sigur gegn Celtic en Alfredo Morelos fékk að líta rauða spjaldið. vísir/epa

Skoska lögreglan greindi frá því í dag að 12 ára strákur hefði verið ákærður fyrir hegðun sína á Celtic Park 29. desember en honum er gefið að sök að hafa sungið kynþáttaníðsöngva á grannaslag Celtic og Rangers.

„Við líðum ekki mismunun af neinu tagi og skoska lögreglan mun halda áfram að rannsaka hvert tilfelli þar sem að grunur leikur á mismunun, og draga þá sem bera ábyrgð fyrir viðeigandi dómstóla. Við viljum minna almenning á að hinn ákærði er undir 18 ára aldri og samkvæmt lögum má því ekki gefa upp nafn hans,“ sagði fulltrúi lögreglunnar við fjölmiðla.

Nikola Katic tryggði Rangers 2:1-sigur í umræddum leik en þetta var fyrsti sigur Rangers á Celtic Park síðan árið 2010. Alfredo Morelos, leikmaður Rangers, fékk rautt spjald fyrir leikaraskap seint í leiknum og Ryan Christie hjá Celtic var úrskurðaður í tveggja leikja bann í kjölfar leiksins eftir að í ljós kom að hann hefði gripið í klof Morelos.

Eftir sigurinn voru Rangers aðeins tveimur stigum á eftir Celtic en nú er munurinn orðinn sjö stig, þó að Rangers eigi reyndar leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×