Innlent

Raf­magni sló út hjá Norður­áli og Elkem á Grundar­tanga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flökt hefur verið á rafmagnskerfi Landsnets nú í kvöld.
Flökt hefur verið á rafmagnskerfi Landsnets nú í kvöld.

Rafmagni sló út í báðum kerskálum álvers Norðuráls á Grundartanga í Hvalfirði í skamma stund nú í kvöld. Enn er unnið að því að koma fullum straumi á að nýju. Þá varð einnig straumlaust í kísilveri Elkem á Grundartanga. Flökt hefur verið á rafmagnskerfi Landsnets nú í kvöld.

Sólveig Kr. Bergmann upplýsingafulltrúi Norðuráls segir í samtali við Vísi að Norðurál, ásamt Landsneti, reyni nú að koma rafmagni aftur í fyrra horf. Það hafði ekki tekist enn um klukkan sjö.

Sólveig segir að rafmagn hafi aðeins verið úti í skamman tíma og því sé tjón óverulegt. Ef straumlaust hefði verið í langan tíma hefði tjón hins vegar getað hlaupið á milljörðum.

Í tilkynningu frá Landsneti kemur fram að högg hafi komið á kerfið, líklegast vegna seltu, í tengivirki á Brennimel. Þessi vandræði hafi orðið þess valdandi að straumlaust varð hjá Elkem og Norðuráli. Verið er að vinna í að koma kerfinu upp aftur og skoða hvort þurfi að skola tengivirkið.

Rafmagnstruflanir hafa verið víða á landinu í dag vegna óveðursins sem gekk yfir. Selta í tengivirki Landsnets í Breiðadal varð til þess að Ísafjarðarlína 1 datt út um klukkan 17:30. Varaafl er komið í gang á Flateyri en straumleysis mun gæta í sveitinni í Önundarfirði og hluta Eyrarinnar.

Uppfært klukkan 21:05:

Í færslu á Facebook-síðu Landsnets segir að Norðurál og Elkem séu að keyra aftur upp rekstur eftir seltuhreinsun. Slökkvilið Akraness fór að tengivirkinu á Klafastöðum til að skola af því salt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.