Erlent

Íhaldsmenn í minnihluta vilja flytja landamæri Oregon

Samúel Karl Ólason skrifar
Kort sem sýnir landamæri Stærra Idaho.
Kort sem sýnir landamæri Stærra Idaho.

Íhaldsmenn í Oregon í Bandaríkjunum vilja breyta landamærum nokkurra ríkja við vesturströnd Bandaríkjanna og færa samfélög íhaldsmanna inni í Idaho. Þeir segjast þreyttir á því að atkvæði þeirra drukkni í atkvæðum frjálslyndra kjósenda í fjölmennum borgum ríkisins og þá sérstaklega Portland. Forsvarsmenn fylkingarinnar segja að um „friðsama uppreisn“ sé að ræða.

Fylking þessi ber nafnið Move Oregon‘s Border for a Greater Idaho, eða Færum landamæri Oregon fyrir landamæri Stærra Idaho.

Hillary Clinton hlaut naum meirihluta atkvæða í Oregon í forsetakosningunum 2016 en Donald Trump vann í Idaho með nærri því 60 prósent atkvæða.

Fylkingin hefur leitað til yfirvalda 18 sýslna í Oregon vegna málsins og er að safna undirskriftum íbúa. Til þess að fá tillöguna í næstu kosningar þarf undirskriftir minnst sex prósenta íbúa. Leiðtogi samtakanna sagði Washington Post að næsta skref yrði að fá sýslur norðurhluta Kaliforníu, þar sem íbúar þykja einnig íhaldssamir, til að ganga sömuleiðis til liðs við hið nýja Idaho.

Þing beggja ríkjanna og Bandaríkjanna allra yrðu að samþykkja breytingarnar, samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Verulega ólíklegt er að tillögurnar verði nokkurn tímann samþykktar. Þær njóta þó stuðnings minnst eins þingmanns í Oregon. Sá heitir Gary Leif.

„Ef Portland er að reyna að splundra ríkinu Oregon, þá eru þeir að standa sig frábærlega og munu ýta frekar undir það að af þessu verði,“ sagði Leif við Washington Post. „Það væri best að leifa Portland að vera Oregon og okkur að ganga til liðs við Idaho.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Repúblikanar í Oregon líta til Idaho. Í fyrra fóru þingmenn Repúblikanaflokksins í Oregon í felur þegar til stóð að greiða atkvæði um lög sem sneru að loftslagsbreytingum. Einhverjir þingmannanna flúðu til Idaho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×