Fótbolti

Ísak sagði nei við Juventus

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ísak hefur leikið fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands.
Ísak hefur leikið fjölda leikja fyrir yngri landslið Íslands. vísir/getty

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, fór fögrum orðum um Ísak Bergmann Jóhannesson í sænskum fjölmiðlum í gær.

„Hann er mjög hæfileikaríkur. Augljóslega á hann margt eftir ólært en hann er mjög þroskaður miðað við aldur. Hann getur orðið mjög góður,“ sagði Hamrén við sænska fjölmiðla um hinn 16 ára Ísak sem skoraði í vítaspyrnukeppni í æfingaleik Norrköping og FC Kobenhavn í gær.

Leikurinn fór fram á Algarve þar sem Hamrén er staddur að fylgjast með íslensku landsliðsmönnunum Ragnari Sigurðssyni, Hirti Hermannssyni og Rúnari Má Sigurjónssyni.

Ísak kvaðst ánægður með að fá hrós frá landsliðsþjálfaranum.

„Það er alltaf gaman að heyra svona lagað frá einverjum sem hefur afrekað svona mikið á ferlinum. Hann hefur gert vel með landsliðið og vonandi kemst það á EM. Það er ánægjulegt að heyra að Hamrén finnist ég góður leikmaður. En það er mikilvægt að halda áfram og leggja hart að sér,“ sagði Ísak við Fotbollskanalen.

Fyrir ári síðan gekk Ísak í raðir Norrköping frá ÍA. Mikill áhugi var á Skagamanninum sem sagði hafnaði m.a. einu stærsta félagi heims, Juventus.

„Nokkur stórlið höfðu áhuga en þau voru ekki mörg sem vildu setja mig í aðalliðið heldur í U-21 eða U-19 ára liðin. Þetta voru m.a. Juventus, FC Kobenhavn, Bröndby og Borussia Mönchengladbach,“ sagði Ísak.

„Þetta er stærsta ástæðan fyrir því að ég valdi Norrköping. Að mínu mati bætir þú þig mest í aðalliði.“

Ísak lék einn leik með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×