Innlent

„Lykilatriði að enginn slasaðist“

Sylvía Hall skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. vísir/vilhelm

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir það fyrir öllu að engin slys hafi orðið á fólki þegar lendingarbúnaður flugvélar félagsins brotnaði skömmu eftir lendingu. Vélin var á leið frá Berlín til Keflavíkur með 160 farþega og sex manna áhöfn.

„Um klukkan hálf fjögur í dag var ein af vélum okkar að koma inn til lendingar frá Berlín með 160 farþega og sex manna áhöfn. Lendingin er eðlileg en skömmu eftir lendingu þá gefur lendingabúnaðurinn hægra megin sig og vélin fer niður á hreyfilinn og rennur aðeins eftir flugbrautinni,“ sagði Bogi í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Hann segist ánægður með störf áhafnar og viðbragðsaðila á vettvangi.

„Áhöfnin okkar stóð sig mjög vel og okkar samstarfsaðilar í Keflavík. Um klukkutíma síðar voru allir komnir frá borði.“

Að sögn Boga voru 58 tengifarþegar um borð sem voru á leið í annað flug til Bandaríkjanna. Allir vildu halda ferðalaginu áfram og komast á áfangastað.

„Það eru allir komnir frá borði og flestir farnir til síns heima eða á hótel hér á Íslandi sem eru að koma hingað sem ferðamenn. Farþegar sem ætluðu áfram til Bandaríkjanna eru að fara þangað á eftir,“ sagði Bogi. Hann segir þó mikilvægast að engin slys hafi orðið á fólki.

„Okkar áhersla er náttúrulega að sinna okkar farþegum sem best í svona atvikum og það er lykilatriði í þessu að enginn slasaðist og þetta fór eins vel og hægt var,“ sagði Bogi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×