Innlent

Far­þegi segir vélina hafa „skoppað eins og skoppara­bolta“

Sylvía Hall skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli í dag.
Frá Keflavíkurflugvelli í dag.

Matthildur Sigurðardóttir, farþegi um borð í vél Icelandair sem var á leið til Keflavíkur frá Berlín, segir farþega hafa verið slegna við lendingu. Eftir að vélin hafði lent datt allt rafmagn út og dauðaþögn var um borð.

Engin slys urðu á fólki en vélin lenti klukkan 15:34 á Keflavíkurflugvelli í dag eftir að lendingabúnaður vélarinnar brotnaði. Hægri vængur og hreyfill snertu flugbrautina líkt og sjá má á mynd. Í kjölfarið var lýst yfir rauðu hættustigi á flugvellinum klukkan 15:45 þegar tilkynnt var um brotinn hjólabúnað á vélinni.

Sjá einnig: Flugvél Icelandair hlekktist á eftir lendingu á Keflavíkurflugvelli

„Það voru allir í sjokki,“ segir Matthildur um atvikið í samtali við fréttastofu. Flugstjóri tjáði farþegum að ef einhver þyrfti áfallahjálp eða læknisaðstoð væri slíkt í boði. Í tilkynningu frá Icelandair segir að viðbragðs- og áfallateymi hafi verið virkjuð.

„Um leið og hún lenti fann maður að hun „crashaði“ og skoppaði eins og skopparabolti og datt svo niður á hægri hliðina. Þá kom eldur á flugbrautina hjá hreyflinum,“ segir Matthildur.

Hér að neðan má sjá myndband frá lendingu.

Klippa: Flugvél Icelandair frá Berlín lendir á Keflavíkurflugvelli

Mikill vindur er á Keflavíkurflugvelli og engir landgangar í notkun. Notast hefur verið við stigabíla og rútur og hefur það gengið vel að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia.

Þá var Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð virkjuð með fullu viðbragði vegna vélarinnar. Viðbragðshópur Rauða krossins var sendur til Keflavíkur og munu bjóða áfallahjálp að því er fram kemur í tilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.